Aðalfundur GKG var haldinn í Íþróttamiðstöð GKG fimmtudaginn 28 október. Rekstur klúbbsins skilaði 36 milljónum í EBITDA hagnað sem er sjö milljónum meiri hagnaður en árið 2018. Ýmsir tekjupóstar sem tengdust sumrinu á borð við vallargjöld, útleigu golfbíla og golfmót fóru vel yfir áætlanir auk þess sem áframhaldandi vöxtur er á útleigu golfherma. Á árinu fækkaði félagsmönnum um 70 sem er visst áhyggjuefni, sú þróun virðist þó vera að snúast við því töluverð aukning hefur verið um umsóknir í klúbbinn eftir að utanhússtímabilinu lauk. Að teknu tilliti til afskrifta sem eru rúmar 17 milljónir króna og fjármagnsliða sem eru 18 milljónir, þá er rekstrarhagnaður klúbbsins tæp milljón.

Framundan eru spennandi tímar hjá GKG. Hafnar eru framkvæmdir við stækkun íþróttamiðstöðvar GKG um 800 fm. Í fyllingu tímans verðu byggður nýr 9 holu völlur sem mun teygja sig niður að Vífilstaðavatni. Þegar hann verður tilbúinn mun Mýrin leggjast af sem golfvöllur. Við þær breytingar verður lagður metnaður í uppbyggingu stutta spils æfingasvæðis utanhúss fyrir högg upp í 150m. Vakin var sérstök athygli á því að engin röskun verður á völlum GKG né aðgengi að Leirdalsvelli og Mýrinni næstu árin. Þá var farið yfir það að Leirdalsvöllurinn verður einn af þeim völlum sem hægt er að spila í Trackman golfhermum um allan heim strax í byrjun nýs árs.

Guðmundur Oddsson var endurkjörinn formaður klúbbsins. Sjö aðilar gáfu kost á sér í fjögur sæti í stjórn. Sigurður Kristinn Egilsson var endurkjörinn og þau Ásta Kristín Valgarðsdóttir, Björn Steinar Stefánsson og Tómas Sigurðsson komu ný inn í stjórn GKG.  Fráfarandi stjórnamenn þau Jón K. Baldursson, Gunnar Jónsson og Þorgerður Jóhannsdóttir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var þeim þakkað fyrir óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins.

Að venju var háttvísisbikar GSÍ veittur þeim unga kylfingi sem þykir hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar árangur og framfarir, ástundun, metnað til að ná langt, félagsanda og ekki síst fyrirmynd annarra félagsmanna, ungra sem aldna hvað varðar háttvísi innan vallar sem utan. Háttvísisbikarinn 2019 hlaut Anna Júlía Ólafsdóttir.

Fundurinn var sýndur beint á facebook. Hægt er að horfa á upptökuna hér.