Andrés Jón Davíðsson hefur verið ráðinn til starfa hjá GKG og hefur störf um áramótin. Andrés mun gegna stöðu barna- og unglingaþjálfara, en mun auk þess sinna almenningskennslu og námskeiðum. Með þessu nær klúbburinn að auka þjónustu við félagsmenn með auknu framboði á kennslu.
Andrés er viðskipta og markaðfræðingur að mennt, hann útskrifaðist sem golfkennari frá PGA í Noregi árið 2000 og starfaði lengi í Þýskalandi sem yfirgolfkennari hjá GC Emstal í Lingen. Andrés kláraði meistaranám í Íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2014 og er fyrstur Íslendinga til að hljóta titilinn „Master Professional“ en til þess að öðlast þann titil þarf meðal annars að hafa 10 ára reynslu frá útskrift PGA náms auk þess að ljúka viðurkenndu meistaranámi með áherslu á efni sem tengist og nýtist golfhreyfingunni.
Andrés hefur verið sjálfstætt starfandi golfkennari undanfarin ár og þjálfað og kennt hinnum almenna kylfing ásamt því að þjálfa nokkra af efnilegustu og bestu kylfinga landsins, s.s. GKG kylfingana Birgi Leif Hafþórsson, bræðurna Ragnar Má og Sigurð Arnar Garðarsson, Kristófer Orra Þórðarson, Fannar Inga Steingrímsson og Ingunni Einarsdóttur.
Við bjóðum Andrés velkominn til starfa og hlökkum til góðs samstarfs við hann.