Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, lék lokahringinn á úrtökumóti á öðru stig fyrir Evrópumótaröðina á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari. Leikið var á Arcos Garden vellinum við suðurströnd Spánar. Þetta er svo sannarlega glæsilegur hringur hjá Birgi og hans besti í mótinu. Hann lék samtals á sex höggum undir pari í mótinu og kemst örugglega í lokaúrtökumótið sem hefst í Katalóníu um næstu helgi.
Birgir hóf leik í dag á 9. teig og lék tíu holur í dag þar sem frestað var í gær vegna veðurs. Hann var á einu höggi undir pari eftir átta holur og bætti um betur í dag og lék síðustu tíu holurnar á þremur höggum undir pari.
Birgir hóf keppni á lokahringnum í 7. sæti en 23 efstu kylfingarnir í mótinu komast áfram í lokamótið. Búast má við að Birgir endi á meðal efstu kylfinga í mótinu enda lék hann mjög vel við erfiðar aðstæður. Sigurvegarinn í mótinu fær um 1.500 evrur í sinn hlut eða um 225 þúsund krónur.
Lokahringurinn hjá Birgi var sá besti í mótinu en áður hafði hann leikið á 70,74 og 70 höggum. Frammistaðan þykir góðs viti fyrir það sem koma skal því nú tekur við erfitt lokamót þar sem leiknir verða sex hringir. Efstu 30 kylfingarnir í því móti vinna sér inn keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.
(af Kylfing.is)