Egill Ragnar Gunnarsson, afrekskylfingur hér í GKG, tryggði sér sæti í A-landsliði karla á úrtökumóti sem haldið var fyrir landsliðshóp Íslands. Egill lék hringina fjóra samtals á 9 höggum undir pari sem er hreint út sagt frábært skor hjá stráknum, en þess má geta að vinningsskor Birgis Leifs í Íslandsmótinu á Korpunni 2013, var 10 högg undir pari.

Í samtali við Golfsamband Íslands sagði Egill: „Ég hef verið að bíða eftir svona hringjum og það gerðist á besta tíma. Ég er gríðarlega spenntur að fá tækifæri með A-landsliðinu á EM í Lúxemborg í júlí. Það sem hefur breyst hjá mér að undanförnu er að æfingarnar eru að skila sér og þá sérstaklega púttin. Ég er að gera færri mistök og fleiri löng pútt eru að detta ofaní holuna. Þetta ár verður eftirminnilegt, það er öruggt.“

Eftir sumarið fer Egill til Bandaríkjanna en þar hefur hann nám við Georgia State University. Egill Ragnar hefur tvisvar leikið með piltalandsliði Íslands en EM Í Lúxemborg í sumar verður í fyrsta skipti sem hann leikur fyrir A-landsliðið. Mótið fer fram dagana 6.-9. júlí en strákarnir okkar leika í 2. deild á Evrópumeistaramótinu.

Með Agli fara fimm kylfingar í viðbót en landsliðsvalið verður kynnt eftir KPMG bikarinn, Íslandsmótið í holukeppni.

Við óskum Agli innilega til hamingju með frábæran árangur og landsliðssætið!

Hér er lokastaðan í úrtökumótinu: