Nú á haustmánuðum verður farið í endurbætur á Mýrinni.
Byggð verður ný flöt á áttundu braut sem verður um 50 metrum neðar en núverandi flöt er. Við það styttist brautin af gulum teigum úr 360 metrum í 310 metra. Meðalkylfingurinn mun því eiga rúmlega 100 metra högg inn á flötina sem mun halla lítið eitt til hægri (sjá mynd). Ef spilað er beint á pinnann, þá er flötin varin af glompu en þeir sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig geta spilað vinstra megin á flötina og látið boltann rúlla niður til hægri í átt að pinnanum.
Þá verður byggður nýr gulur teigur fyrir níundu holuna og hún stytt úr 177 metrum í um 130 metra. Aðkomuhornið mun jafnframt breytast því teigurinn verður töluvert norðar en nú er og verður innáhöggið því krefjandi því flötin verður vel varin af glompum.
Með þessum breytingum er verið að koma til móts við þá kylfinga sem reglulega spila Mýrina og hafa kvartað yfir því að tvær síðustu holurnar séu bæði langar af gulum teigum ásamt því að innáhöggin séu erfið sökum hæðarmismunar.
Áttunda flötin mun í framhaldinu verða nýtt undir æfingasvæði fyrir stutta spilið og verður með þeim hætti fyrsti hlekkurinn í metnaðarfullum áformum fyrir stuttaspils svæði okkar GKG-inga.