Sveit GKG kom gríðarlega á óvart í sveitakeppninni í ár og lagði bæði sveitir GR og GK í leið sinni að titlinum.
18. ágúst verður skrifaður í sögubækur GKG en þá vann kvennasveit okkar sinn fyrsta sigur í sveitakeppni GSÍ. Sigurinn náðist með þrautseigju og einbeitingu stúlknanna okkar. Sveitin lenti í öðru sæti í sínum riðli, vann leiki sína við Kjöl og Sauðárkrók 5-0 en tapaði á móti Keili 3,5-1,5. GR vann sinn riðil og því mættum við vel skipuðu liði þeirra í undanúrslitum. Keppnin var mjög hörð og lögðum við á endanum GR með dramatískum hætti þegar Ingunn Gunnarsdóttir vann Ólafíu Þ. Kristinsdóttur á þriðju holu í bráðabana og tryggði GKG sigurinn 3-2. Í úrslitum mættum við liði Keilis. Staðan var 2-2 þegar Særós átti tvær holur eftir á móti Þórdísi Geirsdóttur. Særós var tveimur undir í þeirri keppni og þurfti að vinna báðar holurnar til að komast í bráðabana. Særós vann þá 17. á pari og gerði sér lítið fyrir og sótti fugl á þeirri 18. till að tryggja sig inn í bráðabana. Bráðabaninn var gríðarlega spennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en á fjórðu holu þegar Þórdís braut reglugerð og tapaði þar af leiðandi holunni. Fyrsti sigur kvennasveitar GKG í sveitakeppni GSÍ er staðreynd, stelpurnar stóðu sig frábærlega og við getum verið stolt af okkar stúlkum!