Síðastliðinn laugardag fór fram golfkynning í Kórnum á vegum GKG og var börnum 7-11 ára boðið á frítt námskeið þar sem áherslurnar voru skemmtilegar golfþrautir með SNAG og venjulegum kylfum, auk annarar hreyfingar. GKG hefur staðið fyrir þessum námskeiðum í vetur annan hvern laugardag frá því í byrjun febrúar. Námskeiðin hafa mælst vel fyrir og hafa krakkarnir sem og foreldrar, skemmt sér vel við að læra undirstöðuatriðin í golfi. Um 30 krakkar mættu á seinasta námskeið og segja myndirnar meira en mörg orð um hvað fengist var við á æfingunni. María Guðnadóttir, íþróttakennari og SNAG leiðbeinandi, hefur haft yfirumsjón með námskeiðunum. Einnig hafa afrekskylfingar aðstoðað við námskeiðið ásamt þjálfurum GKG, þeir Haukur Már Ólafsson, PGA golfkennari og Úlfar Jónsson íþróttastjóri.