Holukeppni GKG 2019

Holukeppni GKG verður haldin í sumar eins og undanfarin ár. Keppt verður í karla- og kvennaflokki líkt og gert var í fyrra sumar.

Skráning fer fram á golf.is eins og um venjulegt mót væri að ræða.

Dregið verður í fyrstu umferð föstudaginn 31. maí. Öllum keppendum er boðið að vera viðstaddir útdráttinn.

Fjöldi umferða fer eftir fjölda keppenda og verður fyllt upp í slétta umferð með hjásetu. Hver umferð stendur í tvær vikur fyrir utan 3. umferð sem lendir ofan í meistaramótinu og nær því yfir þrjár vikur.

Verðlaun verða veitt á aðalfundi GKG skv. lögum félagsins.

Leikfyrirkomulag: Aðeins kylfingar með gilda EGA forgjöf hafa keppnisrétt í holukeppninni. Leikmaður ræður af hvaða teig hann leikur og tekur forgjöf hans mið af því. Forgjöf nýtist í samræmi við forgjafarröð vallarins. Sé annar leikmaður t.d. með 15 í leikforgjöf en hinn 23, fær forgjafarhærri leikmaðurinn eitt högg í forgjöf á hinn leikmanninn á holum 1-8 í forgjafarröð. Hámarksleikforgjöf er 36.

Í hverri umferð eru leiknar 18 holur. Leika skal til úrslita í hverjum leik. Verði leikmenn jafnir eftir 18 holu leik skal leikið áfram og fyrsta unnin hola ræður úrslitum.

Keppendur koma sér saman um hvenær þeir kjósa að leika hverja umferð innan tímamarka hverrar umferðar er fram koma í töflu hér fyrir neðan. Geti keppandi ekki leikið eða mæti hann ekki til leiks á tilskildum tíma hefur hann tapað leik sínum. Mæti hvorugur keppenda til leiks fyrir lokafrest til að ljúka umferð falla þeir báðir úr keppninni. Ef leikmenn geta ekki komið sér saman um leiktíma, geta þeir leitað til mótsstjóra um milligöngu.

Sigurvegari í holukeppninni hlýtur titilinn Holumeistari GKG og fylgir titlinum farandgripur. Einnig hlýtur holumeistarinn verðlaunagrip til eignar.

Áætlaðar tímasetningar fyrir umferðirnar eru eftirfarandi:

 

31. maí Útdráttur  
03. júní – 16. júní 1.umferð > 64
17. júní – 30. júní 2.umferð 64
01. júlí – 21. júlí 3.umferð 32
22. júlí – 04. ág. 4.umferð 16
05. ág. – 18. ág. 5.umferð 8
19. ág. – 01. sept. 6.umferð 4
02. sept. – 15. sept. 7.umferð 2