Hulda Clara og Jóhannes sigruðu í sínum flokkum í Íslandsbankamótaröðinni

Home/Fréttir/Fréttir af unglingastarfi/Hulda Clara og Jóhannes sigruðu í sínum flokkum í Íslandsbankamótaröðinni

Hulda Clara og Jóhannes sigruðu í sínum flokkum í Íslandsbankamótaröðinni

María og Jóhannes fögnuðu sigri í flokki 14 ára og yngri

Annað mót tímabilsins á Íslandsbankamótaröð unglinga fór fram um helgina við fínar aðstæður á Korpúlfsstaðavelli. Leiknir voru þrír hringir í elstu flokkunum (17-18 og 19-21 árs) og var mikil spenna í flestum flokkum.

Í strákaflokki 14 ára og yngri var mikil barátta milli okkar drengja úr GKG, Dags Fannars og Jóhannesar. Þegar upp var staðið munaði aðeins einu höggi og Jóhannes fagnaði sínum fyrsta sigri í mótaröðinni. 

Staða efstu kylfinga í flokki 14 ára og yngri

1. Jóhannes Sturluson, GKG, +8
2. Dagur Fannar Ólafsson, GKG, +9
3. Ísleifur Arnórsson, GR, +11

Bjarney Ósk tók þriðja sætið hjá stelpunum. Miklar framfarir hjá henni enda hefur hún æft mjög mikið undanfarna vetur.

Staða efstu kylfinga í flokki 14 ára og yngri stúlkna:

1 María Eir Guðjónsdóttir GM, +14
2 Nína Margrét Valtýsdóttir GR, +16
3 Bjarney Ósk Harðardóttir GKG, +24

Hulda Clara og Dagbjartur best í flokki 15-16 ára

Hulda Clara okkar úr GKG og GR-ingurinn Dagbjartur Sigurbrandsson stóðu uppi sem sigurvegarar í flokki 15-16 ára. Leiknir voru tveir hringir í þessum flokkum en strákarnir léku á gulum teigum og stúlkurnar á bláum.

Dagbjartur sigraði með nokkrum yfirburðum í strákaflokknum en hann var sjö höggum á undan Lárusi Inga Antonssyni sem endaði annar. Dagbjartur lék samtals á 3 höggum undir pari og lék mjög stöðugt golf báða hringina. Sigurður Arnar úr GKG endaði í 3. sæti á 6 höggum yfir pari en hann sigraði á fyrsta móti tímabilsins á Hellu.

Staða efstu kylfinga í strákaflokki 15-16 ára:

1. Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, -3
2. Lárus Ingi Antonsson, GA, +4
3. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, +6

Í stúlknaflokki hafði Hulda Clara betur gegn Andreu Ýr á lokasprettinum. Þegar tvær holur voru eftir af seinni hring mótsins voru þær Hulda og Andrea jafnar á 10 höggum yfir pari en Hulda lék betur á síðustu holunum og hafa þær nú sigrað á sitthvoru mótinu á tímabilinu. Kinga Korpak, GS, endaði í þriðja sæti á 14 höggum yfir pari.

Staða efstu kylfinga í stúlknaflokki 15-16 ára:

1. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, +11
2. Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA, +13
3. Kinga Korpak, GS, +14

Heiðrún og Sigurður fögnuðu sigri í flokki 17-18 ára

Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, fór með sigur af hólmi í stúlknaflokki 17-18 ára eftir að hafa leikið hringina þrjá á 15 höggum yfir pari. Heiðrún Anna lék mjög vel á lokahringnum, kom inn á 2 höggum yfir pari og fékk fyrir vikið 41 punkt en hún var með 7 í vallarforgjöf. Sigurinn var að lokum nokkuð öruggur en hún endaði 9 höggum á undan Zuzönnu Korpak sem sigraði einmitt á fyrsta móti tímabilsins. 

Árný Eik úr GKG lék vel og tók 3. sætið.

Staða efstu kylfinga í flokki 17-18 ára stúlkna:

1. Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, +15
2. Zuzanna Korpak, GS, +24
3. Árný Eik Dagsdóttir, GKG, +32

Í strákaflokki 17-18 ára var mikil spenna á lokahringnum. Sverrir Haraldsson, GM, var með forystu framan af en Sigurður Bjarki Blumenstein lék frábærlega og kom inn á 3 höggum undir pari og endaði á 2 höggum undir pari í heildina. Sigurður sigraði að lokum með eins höggs forystu. Kristófer Karl Karlsson endaði í 3. sæti á 2 höggum yfir pari.

Staða efstu kylfinga í flokki 17-18 ára stráka:

1. Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, -2
2. Sverrir Haraldsson, GM, -1
3. Kristófer Karl Karlsson, GM, +2

Birgir Björn sigraði eftir bráðabana

Birgir Björn Magnússon, GK, sigraði í dag í flokki 19-21 árs á öðru móti ársins á Íslandsbankamótaröðinni eftir bráðabana. Leikið var á Korpunni við flottar aðstæður.

Birgir Björn lék hringina þrjá samtals á höggi yfir pari og endaði jafn Birni Óskari Guðjónssyni úr Goflklúbbi Mosfellsbæjar. Þeir fóru þá í bráðabana þar sem Birgir Björn hafði að lokum betur.

Þetta er annar sigur Birgis á tímabilinu í jafn mörgum mótum. Flott byrjun hjá Keilismanninum.

Kristófer Orri úr GKG endaði í 3. sæti í mótinu, höggi á eftir Birgi og Birni. Fínn árangur hjá Kristófer sem hefur misst nánast alveg af tveimur síðustu tímabilum vegna meiðsla.

Staða efstu kylfinga í 19-21 árs flokki stráka:

1. Birgir Björn Magnússon, GK, +1 (sigur í bráðabana)
2. Björn Óskar Guðjónsson, GM, +1
3. Kristófer Orri Þórðarson, GKG, +2

 

Byggt á frétt af kylfingur.is

By |04.06.2018|