Hulda Clara Gestsdóttir okkar í GKG gerði sér lítið fyrir og sigraði í einstaklingskeppninni á EM klúbbaliða sem lauk í gær í Ungverjalandi. Sveit GKG endaði í 7. sæti í liðakeppninni og fór upp um 5 sæti á lokadeginum.

Hulda Clara lék hringina þrjá í mótinu á 2 höggum yfir pari en hún lék sérstaklega vel í dag þegar mest á reyndi og kom inn á 3 höggum undir pari. Svo fór að lokum að Hulda endaði sjö höggum á undan Louise Markvardsen, Marie Bechtold og Caroline Sturdza.

Á hring dagsins fékk Hulda alls fimm fugla og tvo skolla en hún lék síðustu 14 holur dagsins á 5 höggum undir pari.

Hulda er þannig fyrsti íslenski kylfingurinn sem sigrar í einstaklingskeppninni á EM klúbbliða en Úlfar Jónsson og Haraldur Franklín Magnús lentu í öðru sæti, Úlfar árið 1988 og Haraldur árið 2010. Aron Snær Júlíusson úr GKG endaði í 3. sæti árið 2017.

Frá vinstri: Arnar Már þjálfari, Hulda Clara, Eva María, Árný Eik

Ásamt Huldu Clöru léku þær Eva María Gestsdóttir og Árný Eik Dagsdóttir í mótinu fyrir hönd GKG. Eva María lék sinn besta hring í mótinu í dag þegar hún lék á 78 höggum en Árný þurfti að hætta keppni.

Smorum golfklúbburinn í Danmörku fagnaði sigri í mótinu en að þessu sinni mættu til leiks landsmeistarar 17 landa frá Evrópu. GKG vann sér inn þátttökurétt með sigri á Íslandsmóti golfklúbba á heimavelli í sumar.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Innilega til hamingju með frábæran árangur!

Til fróðleiks þá koma hér fyrir neðan upplýsingar um gengi kvennasveita í mótinu frá 2003:

GKG endaði í 7. sæti í mótinu af 17 liðum og er þetta næst besti árangur íslenskrar kvennasveitar í mótinu, að minnsta kosti frá árinu 2003. Fyrsta Evrópumót klúbba var haldið árið 2001 í Frakklandi.

Árið 2015 náði GR bestum árangri íslenskra kvennasveita þegar þær Berglind Björnsdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir og Saga Traustadóttir enduðu í 4. sæti. GR á einnig bestan árangur íslenskra karlasveita en þeir Haraldur Franklín Magnús, Arnar Snær Hákonarson og Þórður Rafn Gissurarson enduðu í 2. sæti árið 2010.

Árangur íslenskra kvennasveita frá árinu 2003:

2003: 14. sæti – GK
2004: 15. sæti – GR
2005: Ekki með
2006: 10. sæti – GK
2007: 12. sæti – GKJ
2008: 9. sæti – GK
2009: 8. sæti – GK
2010: 12. sæti – GR
2011: 9. sæti – GR
2012: 12. sæti – GR
2013: 8. sæti – GKG
2014: 10. sæti – GK
2015: 4. sæti – GR
2016: 9. sæti – GR
2017: 14. sæti – GR
2018: 15. sæti – GR
2019: 7. sæti – GKG

Heimild: kylfingur.is