Atli Ágústsson, gleðigjafi og einn af flottu ræsum GKG, er 74 ára Garðbæingur sem sló fyrsta höggið sitt 65 ára gamall og tók golfið með stæl frá þeirri stundu. Hann var kominn í klúbb Einherja sjötugur, gerðist golffararstjóri á Spáni á svipuðum tíma og er með 19,7 í forgjöf.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Góður vinur sem var á fullu í þessu skemmtilega sporti. Ég fór í golfskóla á Spáni og þá var ekki aftur snúið.

Hvers vegna valdirðu GKG?  Ég bjó í Kópavogi og hafði heyrt um frábæran félagsanda í klúbbnum.

Mýrin eða Leirdalur? Leirdalur.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Svo sannalega, sumarið var yndislegt.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Anna, konan mín, synir mínir tveir, Atli Geir og Bjarki Þór og svo afastrákurinn Jóel Gauti Bjarkason. Nei, heyrðu, ég verð eiginlega að búa til Ryder holl svo að ég móðgi nú ekki vini mína, Randver, Bjössa Bergstein, Ingibjörgu ofurkonu og Helgu hans Úlfars

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Hola í höggi á Pelican vellinum í The Villages í Florida. 132 metra högg með hybrid 22 gráðu kylfu. Boltinn lenti í flatarkanti og rúllaði 3-4 metra ofan í holu. Við Anna vorum að spila við amerísk hjón sem voru búin að spila golf í 30 ár og höfðu aldrei upplifað að sjá holu í höggi.

En það vandræðalegasta ? Það var á fyrsta golfsumri mínu. Ég átti svo flott drive á 7. braut á Mýrinni og hljóp af stað með dræverinn en skildi golfkerruna eftir á teig. Ungur maður í næsta holli á eftir kom hlaupandi með kerruna mína og kallaði: ”Heyrðu manni, ertu nokkuð hættur í golfi”?

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Já, mér finnst voða gaman að keppa og Meistaramót GKG er í uppáhaldi hjá mér. Ég fékk örn á 10. holu á Leirdalnum í fyrsta meistaramóti mínu þrem mánuðum eftir að ég byrjaði í golfi 65 ára gamall og með golfsett sem ég keypti í Hagkaup daginn áður. Hélt ég væri alveg komið með þetta en komst aftur niður á jörðina eftir 11 högg á næstu holu (par 3).

Texas Scramble eða Betri Bolta? Texas Scramble.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? Auðvitað sú 10. vegna arnarins í meistaramótinu.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? Auðvitað 7. vegna atviksins hér að ofan

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Golf Del Sur á Tenerife þar sem ég er fararstjóri í golfferðum.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Já, ég er mikið í golfhermum GKG á veturnar og finnst það frábært.

Hver er uppáhaldskylfan? Ping G400 driver.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Já, GKG-ingurinn Ingibjörg Þ Ólafsdóttir. Hún er fyrirmyndar íþróttamaður.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?  Samloka, kristall og banani.

Hvað er lang, lang best við GKG? Félagsandinn og starfsfólkið allt.