Klúbburinn okkar er svo heppinn að búa að starfsmönnum á heimsmælikvarða. Einn af þeim er aðstoðarvallarstjórinn okkar Guðni Þorsteinn Guðjónsson sem er ekki eingöngu meistari í að búa til góða golfvelli heldur líka sem kylfingur og ber t.a.m. titilinn Meistari 1. flokks GKG 2018! En snillingurinn er líka óhræddur við að ögra sér og upplifði lágpunktinn á golfferlinum sínum akkúrat ári eftir stóra titilinn, eins og fram kemur í viðtalinu. Meistarinn er 33 ára, með 5,8 í forgjöf og býr í Reykjavík eins og er en eftir nokkurra ára útlegð þá er flutningur í heimabæinn Garðabæ á dagskrá hjá honum og hans í sumar. Guðni orðar það svo vel að styrkur GKG vallanna í sumar verði upplifun kylfingsins og það er algerlega við hæfi að gefa þessum flotta vorboða orðið, fá hann til að kveða burt snjóinn og búa okkur andlega undir gott golfsumar.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Ætli það hafi ekki verið í kringum 1995/1996 þegar ég fór með frænda mínum í Öndverðarnes. Þetta byrjaði svo fyrir alvöru þegar Tiger fór að vinna fyrstu mótin.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ólst upp nánast í næsta húsi við völlinn. Spilaði par 3 völlinn sem var þá upp við Reykjanesbrautina. Fór á nokkur barnanámskeið á sumrin og eftir að hafa verið gripinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar af vallareftirlitinu við að stelast inn á aðalvöllinn þá var kominn tími á að ganga í klúbbinn árið 2000. Síðan þá hefur GKG verið nánast mitt annað heimili.

Mýrin eða Leirdalur?

Leirdalur.

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?

Ánægja félagsmanna og annarra gesta með vellina okkar.
 

Hvert er planið og leynivopnið  fyrir golfsumarið framundan?

Gera góða velli enn betri. Þetta verður risastórt sumar, jafnvel stærra en í fyrra. Það væri óskandi eftir allt sem á undan hefur gengið að einhver myndi græja 20 gráður og sól á okkur allt sumarið. Það er leynivopnið. Ég bið ekki um mikið.

 

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Það eru allir sem hafa hlotið þann heiður að spila undir merkjum klúbbsins Vinir Múffa. Þetta er einkaklúbbur og þar fær enginn utanfélagsmaður aðild, því miður.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Að vinna 1. flokk í Meistaramótinu 2018. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn stressaður og þegar ég stóð á 1. teig á lokahring. Það var búið þegar teighöggið endaði á miðri braut. Það var líka hrikalega skemmtilegt að taka þátt í sveitakeppni unglinga fyrir hönd GKG 2003 og 2004 á Akureyri og í Vestmannaeyjum. 

En það vandræðalegasta?

Þegar ég endaði neðstur í Meistaramótinu 2019. Ég hélt að það væri frábær hugmynd að taka þátt það árið í meistaraflokki í fyrsta skipti. Maður var orðinn lítill í sér að sjá nafnið sitt á skjá í skálanum fast við botninn en það er eins og það er. Áfram gakk.

 

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Já ég tek í raun þátt í öllum golfmótum sem haldin eru á vellinum. Ég spila nú ekki í öllum mótum en ég ásamt samstarfsmönnum mínum á vellinum tökum þátt í undirbúningi fyrir mótin. Ég tek samt alltaf þátt í Meistaramótinu og það er langskemmtilegasta mótið. Það er ákveðin stemning sem myndast nokkrum vikum fyrir þetta mót og nær svo algjörum hápunkti á meðan á því stendur. Bændaglíman er líka algjör veisla.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Höggleikur ekki spurning. Holukeppni án forgjafar ekki langt þar á eftir.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Ég á mér kannski ekki eina uppáhalds holu. Mér finnst fyrstu þrjár stórkostlegar byrjunarholur. Fimmta og 8. eru frábærar par 4 holur sem geta refsað manni harkalega. En ef ég ætti að velja eina ætli ég myndi þá ekki velja 16. Það er hola sem hefur í rauninni allt. Löng par 5 hola með allskonar hættum en getur líka gefið vel. Þeir allra lengstu geta reynt við flötina í tveimur höggum en þá má ekkert klikka. Skólabókardæmi um „risk and reward“ holu. Í mínum huga er þessi hola „signature“ hola vallarins.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Þriðja holan. Stutt par 4 sem gefur alltaf góðan möguleika á fugli. Verð eiginlega að nefna 7. holuna líka. Það er virkilega krefjandi hola og ég gleymi því ekki þegar ég fékk fyrsta parið þar. Leið eins og ég hafi farið holu í höggi.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Af mörgum góðum þá verð ég að segja Brautarholt. Þetta vallarstæði er náttúrulega á heimsmælikvarða. Erlendis ætla ég að nefna Streamsong á Florida, Doonbeg á Írlandi og Lost City í Suður Afríku. Þetta eru vellir sem allir kylfingar ættu að spila a.m.k. einu sinni á ævinni.

 

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Ég vildi að ég hefði verið duglegri að nota þá en í þau skipti sem ég hef farið hef ég verið mjög ánægður. Geggjað að spila Leirdalinn.

 

Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Driverinn ekki spurning. Bara þrusa eins langt og ég get.

 

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Já Ian Poulter. Hann er grjótharður Arsenal maður. Ég myndi alveg pína mig í hring með þeim meistara.

 

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?

Blár gatorade, samloka, flatkaka með hangikjöti, þristur eða snickers og vatn. Það þarf ekkert flækja þetta.

Hvað er að frétta af völlunum okkar eftir veturinn og hver verður styrkur þeirra í sumar?

Fyrir nokkrum vikum síðan þá leit allt mjög vel út en svo ákvað einhver að skella á okkur Síberíufrosti. Það er ennþá talsvert frost í vellinum en við höfum samt sem áður náð að vinna í ákveðnum framkvæmdum úti áður en allt fór í frost. Þessar framkvæmdir verða, að ég tel, vellinum til mikilla bóta og ég held að félagsmenn eigi eftir að verða mjög ánægðir. Styrkur vallanna verður upplifun kylfingsins. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Ég held að allir sem hafa svarað þessari spurningu hafi nefnt GKG andann. Og ætli það sé ekki bara það langbesta við klúbbinn. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að maður er búinn að sjá sömu andlitin ár eftir ár á vellinum og núna innanhúss á veturna. Það segir okkur að við séum að gera eitthvað rétt.