Gullveig Teresa Sæmundsdóttir er Garðbæingur á allra besta aldri og einn af tryggu félögum GKG nánast frá stofnun klúbbsins. Hún er með 23,6 í forgjöf, er af mörgum góðu kunn, þekkir sögu vallanna okkar afar vel og átti meira að segja sinn þátt í breytingu á 13. holu á Leirdalnum á sínum tíma og það á sögulegan hátt. Við gefum Gullveigu Teresu orðið.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Ég kynntist golfi þegar ég var í sólarferð í Portúgal árið 1991. Ekki sá til sólar en í nágrenni við hótelið okkar var æfingasvæði fyrir kylfinga. Við hjón ákváðum að prófa – kolféllum og erum enn að. Árangurinn í engu samræmi við þann fjölda ára sem við höfum spilað golf.

Hvers vegna valdirðu GKG? Ég bý í næsta nágrenni við völl GKG, ákvað að ganga í klúbbinn og hef aldrei séð eftir því.

Mýrin eða Leirdalur? Ég geri í raun ekki upp á milli þeirra. Mér finnst gott og gaman að ganga og spila Mýrina. Leirdalurinn er meiri ögrun og erfiðari gangs. Er því oftast á bíl þegar ég spila Leirdalinn.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Mér fannst vellirnir frábærir í sumar. Vel hirtir og fallegir. Sýnist líka kylfingar almennt ganga betur um vellina en áður. Umgengni kylfinga og umhirða starfsmanna skipta miklu máli.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Ég á svo marga góða golfvini í GKG að ég get ekki gert upp á milli þeirra. Ef ég mætti velja einn sem ekki er í GKG og væri með MÉR í liði í holukeppni myndi ég velja Rory McIlroy.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Skemmilegu atvikin er óteljandi og eins og með golfvinina er erfitt að gera upp á milli þeirra. Ég skemmti mér alltaf vel með góðu fólki og mér finnst líka mjög gaman þegar ég á góðan dag og spila bærilega. Geri ekki lengur kröfur til sjálfrar mín um að spila vel. 😊

En það vandræðalegasta ? Fyrir nokkrum árum var stór steinn rétt fyrir framan kvennateiginn á holu 13. Eins og oft áður lá mér mikið á að klára hringinn. Í þetta skipti var það vinnan sem kallaði. Ég þurfti að flýta mér heim og undirbúa viðtal sem ég ætlaði að taka daginn eftir við Vigdísi Finnbogadóttur á Bessastöðum. Í asanum klúðraði ég teighögginu gjörsamlega. Boltinn lenti í umræddum steini og fór þaðan beint í andlitið á mér! ☹ Ég var svo heppin að fá boltann í kinnina en ekki tennurnar og var óbrotin eftir.  Það var ekki frýnileg kona sem blasti við mér í speglinum daginn eftir. Ég var kolmarin á kinninni og með svakalegt glóðarauga. Viðurkenni að ég var hálfvandræðaleg þegar forsetinn okkar fyrrverandi horfði alvarleg á mig og sagði: “Guð minn góður, hvað kom fyrir þig?”  Skömmu síðar var umræddur steinn fjarlægður.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Ég tek sjaldan þátt í mótum nú orðið en hef mest gaman af kvennamótum.

Texas Scramble eða Betri Bolta? Ég hef gaman af hvoru tveggja.

Uppáhalds holan þín í Leirdalnum? 9. holan er í miklu uppáhaldi hjá mér – enda sú hola vallarins sem ég hef oftast parað.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? Ég er mjög hrifin af 8. holu. Ég hef aldrei náð yfir veginn í teighöggi en finnst spennandi að slá annað höggið og reyna að koma mér í góða stöðu fyrir þriðja höggið.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Ég á mér marga uppáhaldsvelli. Þegar ég hugsa mig um hefur veður, félagsskapur og gengi mitt hverju sinni mest áhrif á hvað völl ég tel vera í mestu uppáhaldi í það og það skiptið.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Ég nota hermana lítið sem ekkert. Hef hreinlega ekki komist upp á lag með að nota þá. Ég kýs frekar að sjá kúluna fljúga og rúlla!

Hver er uppáhaldskylfan? Líklega sú sem  skilar mér bestum árangri hverju sinni. Stundum er það ásinn, stundum járn eða brautarkylfa og stundum er það blessaður pútterinn. Ég læt mig enn dreyma um golfhring þar sem ég hef góð tök á öllum kylfunum.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Ég á mér marga uppáhaldskylfinga en enga sérstaka fyrirmynd. Helsta markmið mitt þessa dagana er að gera betur í dag en í gær og reyna að halda forgjöfinni. Verulegur bónus að ná einum hring yfir sumarið þar sem ég lækka. Geri ekki meiri kröfur en það.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Ég hef með mér appelsínudjús, banana og samloku þegar ég spila Leirdalinn. 9. hola í Leirdal gengur undir nafninu Banabrautin hjá mér og nokkrum golfvinum mínum. Læt annaðhvort djúsið eða bananann duga ef ég spila Mýrina.

Hvað er lang, lang best við GKG? Fólkið sem ég hef kynnst  í gegnum árin hjá GKG skiptir mig lang, lang mestu máli. Og auðvitað völlurinn líka!