Það er algengt að sjá afreksíþróttamenn finna sig í golfinu eftir að afrekskaflanum lýkur. GKG á nokkra
slíka snillinga, einn af þeim er Vernharð Þorleifsson, sem er þekktur sem Venni Páer og einnig Venni Bændaglímubóndi eins og við GKG-ingar
þekkjum hann best. Hann er 46 ára Kópavogsbúi sem í dag er með 13,9 í forgjöf.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Þegar ég hætti að keppa í júdó árið 2003 varð til ansi stórt tómarúm
sem ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að bregðast við. Stuttu síðar flutti æskufélagi minn heim frá
Danmörku þar sem hann hafði verið í námi og hann dembdi sér í golfið stuttu eftir að hann kom heim. Ég
fylgdi fljótlega og náði þar að fylla upp í þetta tómarúm og rétt rúmlega það:)

Hvers vegna valdirðu GKG? Félagsskapurinn var þar og er enn.

Mýrin eða Leirdalur? Leirdalurinn allan daginn.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Já og nei. Það er búið að gera heilmargt sem
bætir vellina alveg heilmikið sbr. drenlagnir, endurbætur á teigum og flötum og fleira. En það er aðallega
tvennt sem fer óendanlega í taugarnar á mér og það eru glompurnar á vellinum sem mættu vera mun
betri og svo er það blessaða 18. flötin sem mér finnst gríðarlega illa heppnuð. Mig grunar samt að þessi
tvö atriði séu á aðgerðaráætlun klúbbsins.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Það væru nú
klárlega vinir mínir Bjarmi Guðlaugs og Haukur Jóns sem ég spila hvað mest með. Við myndum svo bjóða
Donald Trump að spila með okkur en afbóka hann svo með skömmum fyrirvara fyrir Grétu Thunberg.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Við förum 12 vinir saman í 5 daga
golferð á hverju ári og spilum “Ryder Cup”. Það er klárlega hápunktur ársins og það skemmtilegasta sem
ég tengi við golfið. Svo var mjög gaman að fá að taka þátt í golfþáttunum á RÚV með Hlyn og Benna. Við
áttum góðar stundir saman.

En það vandræðalegasta? Þar er úr nægu að velja. Flest Meistaramót sem ég hef tekið þátt í hafa verið
vandræðaleg fyrir mig en árið 2015 tók ég að mér að vera veislustjóri á Arctic Open mótinu á Akureyri.
Eitt af hlutverkum mínum var að taka upphafshögg mótsins. Þetta mót er troðfullt af erlendum gestum
og þar á meðal voru nokkrir japanskir kylfingar. Með þeim í för var japanskur ljósmyndari sem átti að
festa á filmu þessa golfveislu. Hann hafði komið sér vel fyrir nokkrum metrum framan við mig til að ná
örugglega þessu stórkostlega augnabliki. Höggið var óaðfinnanlegt lengi vel eða allt þar til kylfuhausinn
snerti boltann og sendi hann 1,5 cm. framhjá vinstra eyranu á honum.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Þrátt fyrir bitra reynslu þá hef
ég mest gaman af Meistaramótinu og tek alltaf þátt ef ég mögulega get. Svo er alltaf skemmtileg
stemming á Bændaglímunni og fólk í góðum gír.

Texas Scramble eða Betri Bolta? Texas, sennilega af því að ég spila það sjaldnar.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? Það er 16. Mér finnst hún erfið en skemmtileg. Það er eitthvað að
gerast í hverju höggi.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? Það er klárlega 3. þar sem fasteignasöluskiltið mitt stóð í nokkur ár.
Þetta skilti á víst met í kvörtunum. Engar áhyggjur, það kemur aftur næsta sumar.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Ég spilaði Druids Glen á Írlandi í haust og ég held að hann sé
toppurinn af þeim völlum sem ég hef spilað hingað til.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Ég hef alveg gert það já en ég næ ekki góðri
tengingu við þá. Mér finnst svo mikið vanta þegar ég er ekki að spila á grasi. Einhverjir bjánar segja
sennilega að ég tengi ekki heldur við grasið miðað við getuna.

Hver er uppáhaldskylfan? Pútterinn. Eina kylfan sem ég er nokkuð viss um að sjanka ekki.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Donald Trump. Eða nei, Gréta Thunberg.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Ég treysti algjörlega á veitingavagninn hans Vigga.

Hvað er lang, lang best við GKG? Það er félagsskapurinn, bæði á vellinum og í skálanum.