Nú eru rúmar tvær vikur síðan við opnuðum tæknivæddasta æfingasvæði á Íslandi, þar sem Trackman hermir er við hvern bás. Kylfingar hafa látið vel af græjunum og þeim upplýsingum sem þær gefa. Starfsmenn æfingasvæðisins eru ötulir við að leiðbeina fólki við notkun hermana.

Hér koma leiðbeiningar fyrir áhugasama, hvetjum ykkur til að skoða þetta og fara svo að æfa og njóta.

 • Hvernig á að byrja, þarf að kveikja á einhverju? Nei, tækið er tilbúið, byrjaðu að slá. 
 • Get ég skoðað myndband af sveiflunni? Já. Að skoða myndband af sveiflunni er einn af valmöguleikunum sem hægt er að velja úr.
 • Hvaða tölum á ég að fylgjast með? Það borgar sig ekki að hafa of margar upplýsingar á skjánum í einu, það getur verið ruglandi. Einbeittu þér að eftirfarandi, allavega til að byrja með:
  • Kylfuferill (Club path): Þetta er ferillinn, eða sú leið sem kylfan er á, þegar boltinn er hittur. Mínus tala þýðir að ferillinn er “út-inn” (þ.e. kylfan er á leið til vinstri þegar boltinn er hittur). Plús tala þýðir að ferillinn er “inn-út” (þ.e. kylfan er á leið til hægri þegar boltinn er hittur). Ágætt viðmið er -3° til +3°
  • Aðfallshorn kylfu í niðursveiflu (Attack angle). Þetta er hversu bratt eða flatt kylfan kemur niður að boltanum. Með járnum viljum við slá niður að boltann (mínus tala). Ágætt viðmið fyrir 7 járn er -3° til -6°.
  • Fyrir dræver þar sem boltinn er upptíaður, þá viljum við að kylfan sé á leiðinni upp þegar boltinn er hittur (plús tala). Ágætt viðmið er 0° til +3° Sjá fróðleiksmyndband hér.
  • Staða kylfuhauss miðað við kylfuferil (Face to path): Staða kylfuhaussins þegar boltinn er hittur ræður mestu um upphafsstefnu höggsins. Hversu opin eða lokuð kylfan ætti að vera ræðst að miklu leyti af kylfuferlinum. Ef ferillinn er t.d. -4° (út-inn), þá þyrfti kylfuhausinn að vera opinn um 2°, þá ætti hann að enda nálægt stefnu skotmarksins. Sjá fróðleiksmyndband um þetta atriði hér.  
  • Högglengd í flugi (Carry). Sýnir hversu langt boltinn flýgur. Hermirinn reiknar flugið útfrá gefnum forsendum, sem eru tegund æfingaboltanna, 15°hita, jafnsléttu og logi. Slíkt kallast Normalization.
  • Högglengd með rúlli (Total). Fluglengd auk rúlls. Rúllið er reiknað útfrá hraða og spuna boltans, mýkt meðalbrautar á PGA mótaröðinni, auk aðfallshorns boltans er hann svífur niður á jörðina.

Hér má sjá upplýsingar um hina ýmsu breytur sem Trackman mælir.

Einnig er miklan fróðleik að finna hér á heimsíðu Trackman University.
 

Opnunartímar

 • Virka daga: 9-22:00
 • Helgar: 9-16:00

Á ofangreindum tímum eru ipad skjáir til staðar. Boltavélin er hinsvegar alltaf opin og geta kylfingar komið og tekið fötu hvenær sem er. Til að tengjast Trackman hermunum, þá er hægt að gera það með eigin iphone eða ipad (aðeins IOS stýrikerfi). Náðu í Trackman GO appið í App store (ipad) eða Trackman Golf appið (iphone). Opnaðu appið og skráðu upplýsingar þínar. Farðu í Settings/WiFi og tengdu þig við herminn sem er við þinn bás.

Verðskrá: 

Aðeins er greitt fyrir boltana. Notkun Trackman hermana er innifalin í verðinu.

 • Boltakort             Verð                      Fullt verð
 • Ein fata                  600,-                    (Fullt verð 600)
 • 6 fötur                 3.000,-                   (Fullt verð 3.600,-)
 • 9 fötur                 4.200,-                   (fullt verð 5.400,-)
 • 16 fötur               7.200,-                    (Fullt verð 9.600,-)
 • 23 fötur               9.600,-                   (Fullt verð 13.800,-)

Básarnir undir skýlinu eru eingöngu fyrir rétthenta kylfinga. Allir básar sem eru fyrir utan skýlið geta bæði örvhentir og rétthentir kylfingar nýtt sér. Örvhentir kylfingar hafa því forgang í þau þegar það eru lausir básar undir skýlinu.

Ath. að það er stranglega bannað að tína sér æfingabolta innan úr netbúrinu. Þeir aðilar sem verða uppvísir að því verður umsvifalaust vísað af æfingasvæðinu.

Helsti kostur við Trackman hermana er sá að notendur fá endurgjöf eftir hvert högg. Við mælum með að leita til PGA kennara sem gefur góð ráð og aðstoðar við að einblína á það sem er mikilvægast til að bæta sveifluna.

Vonandi hjálpa þessar upplýsingar ykkur að notfæra ykkur tæknina sem ykkur stendur til boða.

Með bestu kveðjum, 
Starfsfólk GKG