Fyrir um 10 árum síðan fóru vaskir GKG ingar af stað með það göfuga markmið að byggja aðstöðu undir starfsemina okkar. Verkefnið tók á sig ýmsar myndir og ákveðnir þættir urðu til þess að tafir urðu á. Þegar sá sem þetta skrifar var ráðinn til klúbbsins fyrir um þremur árum síðan var honum sagt að til stæði að fara í byggingu félagsaðstöðu og hafði sá hinn sami það á tilfinningunni að klára þyrfti einhver formsatriði og þá væri málið í höfn. Annað kom á daginn.

Það er skemmst frá því að segja að þetta verkefnið er eitt það erfiðasta sem ég hef á ævinni átt við, ótrúlegustu stöður komu upp og margoft var staðan þannig að fokið var í flest skjól. Með hjálp góðra manna er staðan engu að síður sú að öll ljón eru nú úr veginum, samningur er kominn á við alla hagsmunaraðila . Í hádeginu í dag gengum við frá endanlegum samningi við sveitafélögin Garðabæ og Kópavog . Fyrir tæpri viku gengum við frá nýjum lóðaleigusamningi við ríkissjóð sem gerir það að verkum að félagið getur staðið að eðlilegri uppbyggingu á landi Vífilsstaða. Með allri virðingu fyrir þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg þá er rétt að geta að þætti formannsins Guðmundar Oddsonar, hann tvíefldist við hverja raun og reyndist klúbbnum ómetanlegur í öllu þessu ferli.

En hvað tekur nú við?

Við erum búin að ganga að tilboði GG verks og munu þeir hefja jarðvegsframkvæmdir í febrúar eða um leið og Garðabær gefur út byggingarleyfi. Við gerum við ráð fyrir að vígsla nýrrar íþróttamiðstöðvar verði í mars á næsta ári. Byggingarsvæðið verður girt af og verður eina röskunin vegna hugsanlegra aðfanga byggingarverktaka á vinnusvæðið.

Í ljósi þeirra tafa sem urðu á samningarferli við hagsmunaraðila náum við ekki að byggja húsið fyrir næsta sumar. Í ljósi þess munum við byggja bráðabirgðaaðstöðu sem verður staðsett sunnan megin við púttflötina (sjá mynd). Þar verða settar upp 10 gámaeiningar upp á 140 fermetra auk 120 fermetra tjalds og Proshoppan verður færð á sama stað. Í gámaeiningunum verður Siggi kokkur með sambærilega aðstöðu og hann er nú með og verður pláss fyrir um 40 manns í sæti. Í tjaldinu verður svo pláss fyrir um 90 manns í sæti þannig að við verðum vel í stakk búin til að sinna hinum almenna kylfingi sem og mótum af allri stærðargráðu.

Bráðabirgðaaðstaða

Strax þegar vorar förum við í það að malbika nýja bílastæðið og ganga frá allri bráðabirgðaaðstöðu þannig að sómi sé að og tryggja þannig góða upplifun ykkar kylfinganna þegar við fáum ykkur í heimsókn.

Lykilatriðið er engu að síður að á næsta ári verður risin glæsileg íþróttamiðstöð með bestu félagsaðstöðu sem á er kosið.

Og hvað þá?

Ný íþróttamiðstöð mun gjörbylta öllu okkar starfi. Á sumrin munum við hafa glæsilega aðstöðu til að njóta samveru fyrir og eftir golfhringi ásamt því að húsnæðið mun gera okkur kleyft að taka að okkur mót af hvaða stærðargráðu sem er án vandkvæða. Við munum jafnframt geta sinnt öllu íþróttastarfi með allt öðrum hætti en áður, börn- og unglingar sem æfa hjá GKG eiga sér loksins samastað þar sem þau geta notið samveru æft sig og umfram allt … chillað.

Meginmunurinn verður þó sá að við getum veitt GKG kylfingum þjónustu allt árið um kring. Á veturna getur hinn almenni kylfingur kíkt á okkur og æft sig í einum af golfhermunum sem verða á neðri hæðinni, vippað og púttað. Hann getur jafnframt pantað tíma hjá einhverjum af PGA kennurunum okkar og fengið sveiflugreiningu og æfingaprógram. Þeir metnaðarfullu geta mætt með reglulegu millibili til kennara og æft þess á milli. Það verður líka hægt að panta tíma í golfhermi og spila 18 holur á fjölmörgum þekktum golfvöllum út um allan heim. Fullkomnasta sveiflugreiningartæki sem til er á markaðinum í dag tryggir það að golfhöggin verða nánast fullkomin … það er … gott högg verður jafn gott og slegið er utanhúss en dragbíturinn fyrir suma verður sá að slæmu höggin verða jafnslæm 😉

Allt árið um kring munum við getað eflt allt okkar félagslíf. Fyrir utan það að vera með veitingastað sem opinn er allan ársins hring, þá erum við með möguleika á að skipta upp salnum þannig að lítið mál er að setja upp allskonar þemakvöld, bridge, skák, enska boltann og allt það sem þið félagsmenn hafið áhuga á að taka ykkur fyrir hendur. Þá munum við hafa möguleika á að stórefla allt fræðslustarf því tveir rúmgóðir fundar- og kennslusalir verða á efri hæðinni.

Til hamingju með þennan áfanga GKG-ingar!

Aggi.