1.gr
Mótið skal halda árlega og hefjast með forkeppni sem er 18 holu höggleikur með fullri forgjöf. Hámarks leikforgjöf skal þó vera 36, bæði í forkeppninni og í holukeppninni.

2.gr

Þeir 32 keppendur sem ná bestum árangri í forkeppninni taka þátt í holukeppni með forgjöf, þar sem keppt er um titilinn Holumeistari GKG. Verði tveir eða fleiri keppendur í forkeppninni jafnir á sama skori ræðst röð keppenda eins og kveðið er á um í 5. grein Móta- og keppendareglna GSÍ.

3.gr

Aðeins kylfingar með gilda EGA forgjöf (forgjöf merkt með * á www.golf.is) hafa keppnisrétt í holukeppninni.

4.gr

Leikmaður ræður af hvaða teig hann leikur og tekur leikforgjöf hans mið af því. Nota skal grunnforgjöf eins og hún er, þegar leikur fer fram við útreikning leikforgjafar, þó með hámarksleikforgjöf skv. 1.gr. Forgjöf nýtist í samræmi við forgjafarröð vallarins. Sé annar leikmaður t.d. með 10 í forgjöf en hinn 18, fær forgjafarhærri leikmaðurinn forgjöf á hinn leikmanninn á holum 1-8 í forgjafarröð.

5.gr
Í hverri umferð í holukeppninni eru leiknar 18 holur. Leika skal til úrslita í hverjum leik. Verði leikmenn jafnir eftir 18 holu leik skal leikið áfram og fyrsta unnin hola ræður úrslitum.

6.gr
Mótanefnd ákveður lokafresti til að ljúka hverri umferð holukeppninnar og tilkynnir það í mótaskrá og á auglýsingatöflu. Keppendur í holukeppni koma sér saman um hvenær þeir kjósa að leika hverja umferð fyrir þann lokafrest. Geti keppandi ekki leikið, eða mæti hann ekki til leiks á tilskildum tíma hefur hann tapað leik sínum. Mæti hvorugur keppenda til leiks fyrir lokafrest til að ljúka umferð falla þeir báðir úr keppninni. Ef leikmenn geta ekki komið sér saman um leiktíma, geta þeir leitað til mótstjóra um milligöngu.
7.gr
Sigurvegari í holukeppninni ár hvert hlýtur titilinn Holumeistari GKG og fylgir titlinum farandgripur. Einnig hlýtur holumeistarinn verðlaunagrip til eignar.

Holumeistari ársins á undan afhendir farandgripinn nýjum holumeistara á aðalfundi GKG, sem varðveitir hann til 1. júní. Eftir það verður farandgripurinn til sýnis í skálanum.

Úr 5.gr. Móta- og keppendareglna GSÍ, dags. 17.2.2010

Í keppni með forgjöf

1) skal reikna síðustu níu holurnar með helmings forgjöf, ef keppendur eru enn jafnir

2) skal reikna síðustu sex holurnar með þriðjungi forgjafar, ef keppendur eru enn jafnir

3) skal reikna síðustu þrjár holurnar með einum sjötta forgjafar og ef það dugar ekki

4) skal reikna síðustu holuna með einum átjánda forgjafar.

5) Ef úrslit nást ekki eins og áður greinir, skal hlutkesti ráða röðun.