Reglur fyrir VITA – Mánudagsmótaröð GKG 2019

1. gr
Um mótið
Mótið er punktamót fyrir félagsmenn GKG (innanfélagsmót) þar sem leiknir eru 3 til 9 18 holu hringir á Leirdalsvelli. Keppt verður í karlaflokki og kvennaflokki um titlana Punktameistari karla og Punktameistari kvenna hjá GKG.

2. gr
Keppnisréttur og hámarksforgjöf
Aðeins félagar í GKG hafa keppnisrétt í punktamótinu. Hámarks leikforgjöf er 36 hjá körlum og konum.

3. gr
Fjöldi hringja
Hver leikmaður getur leikið allt að 9 hringi en aðeins 3 bestu hringirnir telja.

4. gr
Skráning og vikudagar
Skráning fer fram með því að senda tölvupóst til proshop@gkg.iseða með því að hringja í rástímaskráningu GKG í s. 565 7373 og verða rástímar teknir frá á mánudögum. Möguleikar verða á rástímum hvenær sem er dagsins.

5. gr
Teigar og forgjöf
Leikmaður ræður af hvaða teig hann leikur og tekur leikforgjöf (vallarforgjöf) hans mið af því. Notuð verður grunnforgjöf eins og hún er á golf.is þegar leikur fer fram, við útreikning leikforgjafar, þó með hámarksleikforgjöf skv. 2.gr.. Þeir aðilar sem skila skorkorti með rangri forgjöf fá frávísun á þann hring.

6. gr
Skorkort
Keppendur skiptast á skorkortum fyrir leik. Að leik loknum skal skila skorkortum í ProShop undirrituðum af keppenda og ritara. Keppandi skal leika hvern hring með að minnsta kosti einum öðrum leikmanni til þess að hringurinn teljist gildur. Sá leikmaður þarf þó ekki að vera keppandi.

7. gr
Úrslit

Ef efstu leikmenn verða jafnir að punktum í lok mótsins, ræður fjöldi punkta á síðasta meðtalda hring (síðasta hring af 3 bestu hringjum) hvers og eins röðun í verðlaunasæti. Ef leikmenn eru enn jafnir að punktum, gilda síðustu 9 holur sama hrings, þá síðustu 6 holur, svo síðustu 3 og að lokum síðasta hola hringsins. Ef úrslit nást ekki með þessum hætti skal varpa hlutkesti.

8. gr
Sigurvegarar og verðlaun
SigurvegararVITA – Mánudagsmótaraðar GKG ár hvert hljóta titlana Punktameistari kvenna og Punktameistari karla og fylgja titlunum farandgripir. Einnig hljóta punktameistarar verðlaunagripi til eignar. Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í hvorum flokki, karla og kvenna.
Verðlaunaafhending fer fram í lokahófi mótsins eða við annað tækifæri.