Mótanefnd skipa:

Jón Kr. Baldursson er formaður mótanefndar GKG árið 2012

Starf mótanefndar GKG felur í sér vinnu við undirbúning móta svo og umsjón með mótum hvort sem um innanfélagsmót eða opin mót er að ræða. Jafnframt hefur mótanefndin komið að styrktarmótum fyrir afrekskylfinga og afrekssveitir. Opin mót og innanfélagsmót skila GKG tekjum sem styrkja starfsemi klúbbsins. Það er því nauðsynlegt að halda mót og reyna að tryggja það að framkvæmd móta sé með sóma þannig að eftir því verður tekið.

Helstu markmið mótanefndar eru:

[checklist]
  • Að halda GKG í fremstu röð mótshaldara á landinu.
  • Að sjá til þess að á Vífilstaðavelli séu haldin mót við allra hæfi.
  • Að styrkja félagsandann innan GKG með öflugum innanfélagsmótum eins og fimmtudagsmótaröð, holukeppni og fleiru.
  • Að vanda ávallt til verka og tryggja að allir fari sáttir heim að móti loknu, óháð hvernig spilamennskan gekk þann daginn.
[/checklist]

Það er mat okkar að búast megi við mikilli samkeppni á milli golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar mótahald. Mótanefnd GKG mun því kappkosta að reyna eftir fremsta megni að standa vel að framkvæmd móta því það mun skila sér til lengri tíma. Ef standa á vel að framkvæmd móta s.s. góð umgjörð, snyrtilegur völlur, góð verðlaun, góð veitingasala og eðlilegur leikhraði þá þarf að virkja góða og öfluga mótanefnd sem er tilbúin að leggja sig fram til að gera hvert mót sem haldið verður á GKG þannig að menn muni eftir.
Mótanefnd þarf að standa að innanfélagsmótum fyrir alla flokka og ætti hún að hafa fyrirkomulagið þannig að allir geti verið með. Hefur þetta verið framkvæmt með GKG mótaröðum síðustu sumur. Jafnframt þarf að standa vel að Meistaramóti klúbbsins svo og að halda Jónsmessumót og Uppskeruhátíð (Bændaglímu) í lok sumars. Mótanefnd hefur haft það á stefnu sinni að Jónsmessumót sé eingöngu ætlað kylfingum 20 ára og eldri, en lokahátíð (bændaglíma) sé fjölskylduhátíð þar sem góð skemmtun og félagsandinn fær að njóta sín. Mótanefndin telur einnig að koma þurfi holukeppni GKG á æðri stall. Það er mat nefndarinnar að opin mót á golfvelli GKG ættu að vera á bilinu 10-15 talsins yfir hvert tímabil. Með fjölgun iðkenda í golfi ætti áhugi á golfmótum að aukast samhliða því. Mótanefndin telur það mikið kappsmál að halda þeim opnum mótum sem verið hafa á golfvelli GKG og gengið hafa vel síðustu tvö árin.
Í mótanefnd þurfa að vera minnst 10 nefndarmenn sem eru tilbúnir að vinna fyrir GKG. Það þarf að virkja alla nefndarmenn í mótanefndinni þannig að álagið dreifist jafnt á milli aðila. Skýr starfslýsing er fyrir hvert starfssvið mótanefndar sé þannig að ekki verði neinn ágreiningur um starfa hennar og starfsemin gangi enn betur fyrir sig.