GKG og Nettó hafa gert samning þar sem Nettó verður einn af aðalstyrktaraðilum barna- og unglingastarfs GKG. Samningurinn er tvíþættur, annars vegar styrkir Nettó barna- og unglingastarf GKG með beinum hætti, hins vegar er Nettó aðalstyrktaraðili árlegra barna- og unglingamóta sem GKG heldur. Um er að ræða Nettó mót unglingamótaraðar GSÍ og Nettó mót áskorendamótaraðar GSÍ.

Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa segir markmið Nettó að styðja við barna- og unglingastarf. „Við styðjum margþætt æskulýðs- og forvarnarstarf á landsvísu sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl  Þessir þættir endurspeglast í starfi GKG,“ segir Ingibjörg Ásta.

Að sögn Ingibjargar  hefur það marga jákvæða þætti að iðka golfíþróttina sem barn og unglingur. „Í fyrsta lagi er það forvarnagildið en það er margsannað að þau börn- og unglingar sem iðka íþróttir leiðast síður út í óreglu. Í öðru lagi þá er uppeldisgildi golfíþróttarinnar með öðrum hætti en tíðkast í flestum öðrum íþróttum. Krökkum er kennt að bera virðingu fyrir hvert öðru innan vallar sem utan, hafa heiðarleika og kurteisi að leiðarljósi og sýna náttúrunni auðmýkt. Í þriðja lagi þá er það ómetanlegt tækifæri fyrir einstakling að læra golfsveifluna á unga aldri. Golfíþróttina er hægt að stunda fram eftir öllum aldri og þeir aðilar sem ná ungir tökum á sveiflunni munu njóta þess út ævina,“ segir Ingibjörg Ásta.

Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG, segir að allt frá stofnun klúbbsins hafi verið lögð mikil áhersla á barna- og unglingastarf. Slík nálgun er forsenda þess að fjölga iðkendum í íþróttinni og hafi leitt af sér að rúmlega 700 börn og unglingar eru virkir iðkendur í klúbbnum á hverju ári.

„Þessi fjöldi barna og unglinga vekur verulega eftirtekt í Evrópu en sem dæmi má nefna eru um 180 börn og unglingar í stærsta golfklúbbi Danmerkur. Það væri óvinnandi vegur að vinna jafn metnaðarfullt starf án aðstoðar frá fyrirtækjum og sveitafélögum“ segir Agnar Már. „Með þessum samningi er Nettó að styðja þétt við bakið á okkur í þeim málum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Nú höfum við tök á að halda glæsileg barna- og unglingamót með sambærilegri umgjörð og á mótaröð þeirra bestu ásamt því að auka þá þjónustu sem við veitum börnum og unglingum í GKG“.

Á mynd frá vinstri: Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, Agnar Már Jónsson, Ástrós Arnarsdóttir, Andrea Sif Þorvaldsdóttir og Úlfar Jónsson.