Nú fyrir áramótin var gerður samningur á milli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og Kreditkorts hf. um að Kreditkort hf. taki að sér allar innheimtur félagsgjalda fyrir GKG árið 2007. Gríðarleg vinna er jafnan ár hvert við innheimtur félagsgjalda félagsmanna auk þess sem kostnaður þessu samfara hefur verið þó nokkur.

 Þessi nýja innheimtuaðferð fer þannig fram að allir félagsmenn fá sendan greiðsluseðil frá Kreditkorti hf. í byrjun mars fyrir félagsgjaldinu 2007. Félagsmaðurinn hefur þá tvo kosti. Að greiða greiðsluseðilinn í banka og er innheimtu ársins þar með lokið. Hinn kosturinn er að hringja í þjónustunúmer Kreditkorta í síma 550-1500 og óska eftir að skipta greiðslum með þeim hætti sem hentar hverjum og einum, í allt að 12 mánuði.  Einnig er hægt að senda tölvupóst á kreditkort@kreditkort.is með beiðni um greiðsludreifingu.  Þar þarf að koma fram nafn og kennitala viðkomandi og fjöldi mánaða sem greiðslan á að dreifast yfir. GKG hefur samið við Kreditkort um hagstæð kjör á greiðsludreifingu sem tekur mið af vöxtum á Staðgreiðslulánum MasterCard og er þeir u.þ.b. 20% lægri en gengur og gerist á greiðsludreifingu kortareikninga.  Félagsmenn sem ganga frá greiðslum sínum fyrir eindaga fá send félagsskírteini sín í byrjun apríl.

Það hefur verið allt of dýr þáttur í rekstri klúbbsins að fjármagna félagsgjöld fyrir hluta félagsmanna og hefur það verið verulegur þáttur í vaxtagjöldum hvers árs. Gert er ráð fyrir því að félagsmenn ætlist til þess að leitast sé eftir sem mestri hagkvæmni við rekstur klúbbsins og er þessi samningur stór liður í þeirri vinnu.

Með þessum samningi sjá stjórnendur klúbbsins fram á að ná að bæta rekstrarafkomu klúbbsins strax á þessu rekstrarári.