Fyrir stuttu hófst stutta spils áskorun í barna-, unglinga- og afreksstarfi í klúbbum víðsvegar á landinu. Áskorunin felur í sér að leikmaður reynir að hitta eins mörgum púttum í röð af 180 sm færi, og vippa í hring sem er 80 sm í þvermál, af 8 m færi. Staðlaðar reglur eru varðandi framkvæmd áskorunarinnar, t.a.m. fer þetta fram einu sinni í viku á ákveðinni æfingu. Þjálfari skal vera til staðar og vitni sem telur hjá þeim sem framkvæmir æfinguna. Leikmaður fær fjórar tilraunir á æfingunni til að ná sem flestum boltum í röð í holu eða vippum í hringinn.

Þetta er spennandi áskorun sem hvetur kylfingana til að æfa sig enn betur í þessum mikilvægu höggum. Á myndinni má sjá einn af efnilegustu kylfingum landsins, Sigurð Arnar Garðarsson, sem er aðeins 12 ára, setja niður eitt af þeim 30 púttum sem hann náði í holu í röð! Fyrir aftan má sjá nokkra æfingafélaga hans pútta og aðra að fylgjast með og telja.