Ragnar Már Garðarsson og Ingvar Andri Magnússon, afrekskylfingar úr GKG, eru við keppni erlendis á sterkum áhugamannamótum.

Ragnar Már hefur lokið keppni í Hollandi þar sem hann tók þátt í Dutch Amateur Championship á Eindhoven golf club. Ragnar lék hringina fjóra á 72-76-72-77, samtals 9 yfir pari og hafnaði í 29. sæti í mótinu.

Ragnar sagði eftir mótið: “Spilamennskan hafi verið frábær og ég var mjög solid. Allir hringir voru efnilegir í undir par þar sem ég var alltaf kominn undir par á þeim hringjum, en með nokkrum mistökum fór það á hinn veg. Það vantar aðeins upp á keppnisúthaldið en þetta verður fljótt að koma.” Ragnar var kylfusveinn í sumar hjá Ólafíu Þórunni í LPGA mótaröðinni og hefur því ekki verið mikið með á mótum hér heima, en hann er margfaldur sigurvegari í Eimskipsmótaröðinni.

Hægt er að skoða úrslit mótsins hér.

Ingvar Andri er núna við keppni á British Boys Championship sem haldið er á Portstewart og Royal Portrush á Norður Írlandi. Opna mótið verður haldið einmitt á Royal Portrush á næsta ári. Alls voru 250 kylfingar 18 ára og yngri skráðir til leiks en eftir 36 holu höggleik er skorið niður í 64 kylfinga sem halda áfram í holukeppni með úrsláttafyrirkomulagi. Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR er einnig meðal keppenda og hafa þeir félagar því miður ekki náð sér á strik í höggleiknum.

Skoða má stöðuna og upplýsingar hér.