GKG kylfingar koma greinilega vel undan vetrinum og fara holu í höggi í gríð og erg, ef svo má segja.

Sigurður Kristinn Egilsson, gjaldkeri GKG, náði draumahögginu í fyrsta sinn í gær þegar hann fór holu í höggi á 13. braut á Leirdalsvellinum.

Brautin er 139 metra löng og var smá mótvindur í gær. Sigurður var búinn að grípa um áttuna en sagði síðan við meðspilarana, “ég nenni ekki að vera enn eitt skiptið of stuttur á þessari braut”, þannig að hann skipti í 7-járn og viti menn, bæng! Þetta sannar hið forkveðna að það sé lykilatriði að drífa alla leið ef boltinn á að eiga möguleika á að fara í holu!  

Sigurður var ásamt 15 öðrum í félagsskapnum TOTAL að leika fyrsta hring sumarsins utandyra (þeir leika allan veturinn í golfhermum GKG).

Sögur herma að bar-reikningurinn eftir hringinn hafi verið býsna hár…

Til hamingju með draumahöggið!

Við höldum til haga upplýsingum um kylfinga sem hafa farið holu í höggi á golfvöllum GKG (Leirdalsvelli og Mýrinni), sjá hér. Ef þú tekur eftir að vanti upplýsingar vinsamlegast sendið upplýsingar á ulfar@gkg.is