Frá árinu 2007 hefur Spánn orðið fyrir valinu sem áfangastaður æfingaferðar íþróttanefndar GKG, og undanfarin tvö ár hefur förinni verið heitið til Hacienda del Alamo í Murcia héraði. Kylfingum í meistaraflokkum, afreks- og keppnishópum hefur staðið til boða að taka þátt í ferðinni, sem og aðstandendum þeirra. Alls tók 31 ungur kylfingur þátt í ferðinni og 32 aðstandendur.
Þjálfarar GKG, þ.e. undirritaður, Derrick Moore, Haukur Már Ólafsson og Birgir Leifur Hafþórsson, sáu um skipulagningu og þjálfun unglinganna meðan á för stóð. Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG var fararstjóri. Æfingaferðin stóð yfir frá 1. – 8. apríl. Þátttakendur söfnuðu sjálfir fyrir ferðinni.
Mikil eftirvænting var í hópnum þegar lagt var af stað, allir fullir tilhlökkunar að fá að leika í Spánarsólinni og að alvöru golf-aðstæður eftir inniæfingar í vetur í Kórnum.
Markmið æfingaferða GKG eru m.a. að:
Njóta þess að leika golf við góðar aðstæður í góðum félagsskap.
Æfa og spila markvisst, öðlast nýja reynslu og þekkingu.
Ná að setja í leik á golfvelli það sem búið er að æfa í vetur.
Efla tengsl og vináttu meðal þátttakenda.
Lögð var áhersla á að nýta tækifærið og leika sem mest golf á vellinum, en ótakmarkað golf var innifalið og auðvelt var að fá rástíma. Því voru margir sem léku 27-36 holur nánast á hverjum degi. Í foreldrahópnum voru 36 holur á dag (á golfbílum) algengar, og lék elsti þátttakandinn, Atli Ágústsson, 45 holur á 69 ára afmælisdeginum! Þjálfarar léku með krökkunum eða voru til staðar á æfingasvæðum og stutta spils svæðum, en allar aðstæður á Hacienda eru mjög góðar, og ekki sakar að tiltölulega fámennt var fyrir utan okkar hóp, þannig að aðgengið var mjög gott.
Þetta var annað árið í röð sem hópurinn fór til Hacienda del Alamo, og líkt og í fyrra var mjög gott veður, mikil sól og 20-25°hiti. Þrumuveður var einn daginn og rigndi meira þann dag en hafði gert í mörg ár, en Murcia héraðið er eitt það þurrasta á Spáni. Hacienda völlurinn er afar langur, en af öftustu teigum mældist hann 6700 metrar, og af rauðum teigum yfir 5500 metrar, sem er lengra en flestir vellir á Íslandi eru af gulum teigum. Brautirnar voru þó harðar, sem gáfu auka metra í teighöggin! Fyrir utan brautirnar var mikið af vel staðsettum glompum, sem og í kringum flatir, þannig að allir fengu góða reynslu af því að leika krefjandi völl. Einnig er mjög góður 6 holu völlur með þremur par 3 og þremur par 4 brautum.
Hacienda hefur marga kosti, sérstaklega hvað varðar æfingasvæðið og aðgengi að golfvellinum. Allur matur var í klúbbhúsinu, og var þjónustufólkið allt að vilja gert að aðstoða okkur. Helsta umkvörtunarefnið var gæðin á matnum, en það lagaðist þó þegar á leið. Ekkert hótel er í rekstri við völlinn, og gisti hópurinn í leiguhúsum við völlinn. Húsin voru í alla staði mjög góð, en engu að síður myndi henta mun betur ef hópurinn gæti gist á einu og sama hótelinu. Slíkt myndi enn frekar efla félagslega þáttinn hjá krökkunum.
Ferðin var brotin upp með heimsókn á Condado de Alhama golfvöllinn, sem hannaður er af Jack Nicklaus, og er að margra mati sá glæsilegasti í héraðinu. Völlurinn var vissulega mjög flottur, og aðalsmerki Nicklaus var bersýnilegt, en flatirnar voru afar litlar, með miklu landslagi og hraða. Djúpar glompur og lægðir allt í kringum flatirnar gerðu þennan völl að krefjandi viðfangsefni, sérstaklega þegar kom að innáhöggum og stutta spili. Allur kostnaður við þessa heimsókn var greiddur úr Niðjamótssjóði íþróttanefndar.
Hefð er komin fyrir „Ryder“ keppni í ferðinni þar sem Kópavogur keppir gegn Garðabæ. Þetta var þriðja árið sem keppt var, og að þessu sinni var búið að kaupa bikar þar sem sigurliðið fær sitt nafn grafið á. Bæjarfélögin höfðu skipst á að sigra fyrstu tvö árin, en í ár voru yfirburðir Garðabæjar miklir, en leikar enduðu 21-10 fyrir Garðabæ.
Þjálfarar voru mjög ánægðir með hópinn, þ.e. hugarfarið og dugnaðinn. Þeir reynsluminni þurftu 2-3 daga til að átta sig á nýjum og breyttum aðstæðum, en eftir það var hópurinn til fyrirmyndar hvað varðar áhuga og dugnað við æfingar. Í æfingaferð sem þessari kemur mjög fljótt í ljós hversu mikilvægt er að stunda vetraræfingar vel, sem og aukaæfingar, því þau sem höfðu æft hvað mest um veturinn voru fljótari að aðlagast aðstæðum og ná árangri á vellinum.
Eins og gengur þurfti að minna oft á umgengni á velli og æfingasvæðum, s.s. gera við boltaför, snyrtimennsku osfrv. Vel var farið yfir þessi atriði og höfum við trú á að GKG kylfingar verði sem fyrr til fyrirmyndar á golfvöllunum í sumar.
Mörg glæsileg golfhögg voru slegin í ferðinni. Birgir Leifur gerði sér lítið fyrir og fékk albatros á 18. holu vallarins, þegar hann sló í holu með dræver af 235 metra færi á móti vindi. Sólon Baldvin Baldvinsson, 14 ára, sló draumahöggið þegar hann fór holu í höggi á 1. holu á æfingavellinum, en hann notaði 7-járn af 150 metra færi. Sólon var ekki sá eini sem fór holu í höggi, en einn pabbinn í ferðinni, Ágúst Arnbjörnsson, fór holu í höggi á 5. braut sem er 180 metrar að lengd.
Viljum við þakka krökkunum fyrir góðar samverustundir í ferðinni. Þau voru sér og sínum auk GKG til mikils sóma, ávallt jákvæð og tilbúin í verkefnin sem fyrir þau voru lögð, en algengt var að æfingar og spil stæðu í um 10 tíma hvern dag hjá þeim eldri.
Kærar þakkir fær hinn frábæri foreldrahópur sem við þjálfarar erum svo lánsamir að eiga gott samstarf við. Heil vika saman í góðum félagsskap við sameiginlegt áhugamál styrkir tengsl þjálfara, barna, og foreldrahópsins sjálfs. Framtíð GKG er afar björt með breiðan hóp heilsteyptra ungra einstaklinga, en með áframhaldandi dyggum stuðningi stjórnar GKG og foreldra þeirra geta þau náð frábærum árangri á íslenskri og erlendri grundu, ef áhuginn og dugnaðurinn er fyrir hendi.
Myndir úr ferðinni eru komnar á facebook síðu barna- og unglingastarfs GKG, og er hægt að skoða þær hér.
Bestu kveðjur frá þjálfurum og formanni íþróttanefndar GKG,
Úlfar Jónsson
Derrick Moore
Haukur Már Ólafsson
Birgir Leifur Hafþórsson
Gunnar Jónsson
Áfram GKG!