Það er oft margt skrýtið og skemmtilegt sem gerist á golfvellinum og hendir kylfinga. 
 
Draumur flestra kylfinga er að ná hinu fullkomna höggi og senda boltann í holu í fyrsta höggi á par þrjú holu, sem sagt að ná holu í höggi. Sumir ná vissulega þessu draumahöggi en af “tæknilegum” ástæðum geta ekki sagst hafa farið holu í höggi.
 
Þorsteinn Þórsson, “gömul” tugþrautakempa og félagi í GKG til margra ára komst í byrjun sumars í mjög sérstakan hóp golfara, þ.e. þeirra sem hafa farið holu í höggi, án þess að það teljist vera hola í höggi. Það sem meira er að þetta gerðist ekki bara einu sinni heldur tvisvar á einni viku!
 
Steini lýsir þessu þannig að hann hafi verið að spila 10. holuna í Þorlákshöfn og þar hafi hann slegið arfaslakt högg þannig að tíaði upp annan bolta og þá gekk betur. “Annað höggið frábært högg, vel hittur bolti sem flaug nákvæmlega eins og ég hafði séð fyrra höggið fyrir mér. Slegið létt upp í töluverðan hliðarvind og svo gaf boltinn aðeins eftir í vindinum og lenti á gríninu en þar missti ég af boltanum. Þegar ég nálgaðist grínið sá ég hins vegar, mér til furðu, engan bolta á gríninu en var þá strax nokkuð viss um að hann hlyti þá að vera í holunni, sem reyndist, mér til mikillar ánægju, vera rétt. “Létt par”
 
Viku síðar, á 18. holu í Grindavík var fyrsti bolti sjankaður langleiðina útaf velli og því betra að gleyma honum og slá þriðja högg af teig. “Það högg var frekar lélegt, illa hittur bolti sem lenti fyrir framan grínið og skondraðist inná grín og rúllaði svo í smá boga í holuna. Ég gat ekki einu sinni fagnað því höggi og vissi sem var að þetta var bara komið út í tóma vitleysu! Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér hvort að maður verði mjög glaður ef að maður nær holu í höggi með lélegu höggi og held eftir þessa reynslu að svarið sé, nei.”
 
Til allrar hamingju fyrir Steina þá hefur hann afrekað það að ná “alvöru” holu í höggi. Myndin sem fylgir er tekin af því tilefni árið 2022 á 9. holu á Leirdalnum.