Við undirbúum okkur undir sólríkt sumar 2019.

Kæru félagar,

Á aðalfundi GKG 2018 var stefnan sett fyrir árið 2019, nýtt árgjald ákveðið og umfram allt, þá var það samþykkt með lófaklappi að sumarið 2019 mun einkennast af sól og blíðu.

Þá var það áréttað að engar framkvæmdir eru fyrirsjáanlegar næstu árin sem munu hefta aðgengi að Mýrinni eða Leirdal. Nýr níu holu völlur verður fullgerður áður en nokkrar framkvæmdir hefjast á Mýrinni.

Ákveðið var að félagsmenn sem greitt hafa árgjöldin fyrir árið 2019 fái tvö skipti frítt í golfherma GKG (2 x hálftíma, gildir til 1 október 2019). Nú sendum við ekki greiðsluseðla fyrr en í janúar þannig að þeir sem vilja nýta sér þessi fríðindi í jólafríinu geta greitt árgjaldið inn á reikning 0318-26-000176, kt. 650394-2089, prentað út greiðslukvittun (eða taka af henni mynd) og sýnt hana í verslun GKG, flóknara er þetta ekki. Sjá verðskránna með því að smella hér. Önnur fríðindi sem GKG meðlimir hafa má sjá með því að smella hér.

Fyrsta afborgun korta og seðla verður í byrjun febrúar eins og undanfarin ár. Þeir sem ætla að breyta fyrri greiðsluskiptingu sem og þeir sem þurfa kvittanir fyrir árgjaldi 2018 þurfa að hafa samband við skrifstofuna fyrir 10. desember. Frá þeim tíma verður hún lokuð fram yfir áramót. Verslun GKG verður opin eftir sem áður, opnunartíma GKG má sjá með því að smella hér.

Félagsaðild endurnýjast sjálfkrafa samkvæmt lögum GKG. Þeir kylfingar sem ætla að segja sig úr klúbbnum þurfa að gera það fyrir áramót með því að senda skeyti á gkg@gkg.is.

Með GKG kveðjum,
Stjórn og starfsfólk GKG