Um klúbbinn okkar

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar var stofnaður 24. mars 1994.

Svæði félagsins er í landi Garðabæjar annarsvegar og í landi Kópavogs hinsvegar eins og nafnið ber með sér. Vallarstæðið er í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ og í Leirdal ofan við Salahverfi í Kópavogi.

Fram til ársins 1996 voru einungis 9 holur til afnota fyrir félagsmenn en árið 1996 voru teknar í notkun 9 holur til viðbótar og var völlurinn þá orðinn 18 holur. Enn frekari endurbætur voru gerðar á vellinum 2002 og nú síðast hafa 9 holur til viðbótar verið byggðar í Leirdal í landi Kópavogs. Kópavogshluti vallarins var tekinn í notkun árið 2007. Í dag er völlurinn orðinn hinn glæsilegasti og státar af 27 holum.  Annars vegar er 9 holu völlurinn okkar, Mýrin, og hinsvegar 18 holu völlurinn, Leirdalsvöllur.

 

 

Til stendur að taka æfingasvæði klúbbsins til gagngerrar endurnýjunar. Æfingasvæðið er stórt og öll önnur aðstaða til golfiðkunar á svæði klúbbsins með því sem besta sem gerist á landinu.

Um 2.000 félagar eru nú í GKG og mikið af þeim fjölda eru börn og unglingar. GKG telur flest ungmenni yngri en 16 ára af öllum golfklúbbum á landinu og er það mikið ánægjuefni að hafa úr svo miklum efnivið að moða til framtíðar.

Fjárhagsár golfhreyfingarinnar er frá 1. nóvember til 31. október og er aðalfundur klúbbsins haldinn í lok nóvember ár hvert þar sem m.a. stjórn klúbbsins er kosin. Frá upphafi hefur verið öflugt félagsstarf og ávallt hefur góður félagsandi einkennt starfssemi GKG. Haldnir eru félagsfundir nokkrum sinnum á ári auk þess sem í klúbbnum eru starfandi ýmsar nefndir og klúbbar, t.d. unglinganefnd, afreksnefnd, hjónanefnd, öldunganefnd, kvennanefnd og ferðanefnd. Einnig er rekið öflugt nýliðastarf þar sem nýliðar sækja bæði bókleg og verkleg námskeið.

Tilgangur GKG og markmið eru skv lögum hans að glæða og viðhalda áhuga á golfíþróttinni. Auk þess ber klúbbnum að veita íbúum Garðabæjar og Kópavogs á öllum aldri þjónustu og aðstöðu til íþróttaiðkunar og tómstundastarfs. Sérstök áhersla er lögð á íþrótta- og uppeldisstarf með börnum og unglingum til að stuðla að heilbrigðu líferni og félagsþroska.

Það er framtíðarsýn stjórnenda GKG að klúbburinn standi ávallt traustum fótum hvað snertir fjölda klúbbfélaga, árangur í keppnisíþróttum, aðstöðu til æfinga og keppni, fjárhagslega stöðu og annað það sem leggur grunn að umfangsmiklu og gifturíku starfi. GKG starfi þannig á fullbyggðu félagssvæði sem anni eftirspurn eftir aðstöðu til golfiðkunar og útiveru, unglingastarf sé öflugt, árangur meistaraflokka í fremstu röð, reglubundin skráning sögu klúbbsins innbyggð í dagleg stjórnunarstörf og klúbburinn í sviðsljósinu sem einn sterkasti golfklúbbur landsins á afrekssviðinu.

GKG sé klúbbur allra aldurshópa, skemmtilegur, menningarlegur, félagslegur og gefandi fyrir félagsmenn, með virkt stjórnkerfi sem misbýður ekki vinnuskyldu sjálfboðaliða í stjórnunarstörfum heldur veitir þeim eins og öðrum GKG félögum ánægju af starfi sínu innan klúbbsins. Það er framtíðarsýn GKG að klúbburinn hafi glæsta og áferðarfallega ímynd og að saga hans sé hverju sinni saga sameiginlegra sigra í leik og starfi þeirra félagsmanna sem fylkja sér saman undir merkjum GKG.

Framkvæmdastjóri GKG sér um allan rekstur klúbbsins og gefur upplýsingar um starfssemina í síma 570 7373 eða með tölvupósti: gkg@gkg.is

Markmið

Gæðahandbók GKG