Stjórn GKG skipar allar nefndir sem starfa innan klúbbsins. Þær eru ýmist fastanefndir sem sinna tilteknum málaflokkum eða tímabundnar nefndir sem sinna afmörkuðu, tímabundnu verkefni. Ávallt skal skilgreina hlutverk og helstu verkefni nefndar. Fastanefndir skulu að jafnaði skipaðar eigi síðar en einum mánuði eftir aðalfund klúbbsins ár hvert.

Í nefnd sitja að jafnaði þrír til tíu klúbbfélagar, eftir ákvörðun stjórnar hverju sinni. Stjórn skipar formann nefndar en að öðru leyti skiptir nefnd sjálf með sér verkum eftir því sem ástæða þykir. Starfsfólk klúbbsins situr að jafnaði ekki í nefndum.

Formaður nefndar skal gera stjórn grein fyrir störfum hennar svo oft sem stjórn óskar. Allar nefndir skulu taka saman yfirlit um störf sín eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.

Nefnd getur hvorki ákveðið stefnu klúbbsins í einstökum málaflokkum né skuldbundið hann fjárhagslega nema stjórn veiti henni ótvírætt umboð til þess.

Nefnd hefur ekki boðvald yfir framkvæmdastjóra klúbbsins eða öðru starfsfólki. Þá dregur tilvist nefndar á engan hátt úr valdi og ábyrgð framkvæmdastjóra á daglegum rekstri klúbbsins. Framkvæmdastjóri, íþróttastjóri, vallarstjóri og þjónustustjóri sitja í eða starfa með einstökum nefndum eftir því sem nánar segir í skilgreiningu á hlutverki og helstu verkefnum nefndar.