Markmið GKG

1. Þjónustusvæði
Það er markmið GKG að starfa að íþrótta-, tómstunda- og félagsmálum í Garðabæ og Kópavogi á þann hátt að sem flestir bæjarbúa geti með einhverjum hætti notið góðs af.

2. Þjónusta
Það er markmið GKG að veita félagsmönnum sínum og bæjarbúum fyrsta flokks þjónustu á sviði golfíþróttarinnar og útiveru. Í þeim efnum verði fjölbreytni höfð að leiðarljósi, jafnt í keppnis- sem áhugamennsku. Það er jafnframt markmið GKG að innan vébanda félagsins ríki andrúmsloft víðtækrar samheldni og leikgleði þannig að félagsmenn njóti þess að vera saman, starfa saman, æfa saman og keppa undir merkjum félagsins. GKG mun beita sér fyrir því að innan hans geti börn og unglingar starfað óháð efnahag.

3. Aðstaða.
Það er markmið GKG að tryggja sem flestum aðstöðu til hollrar hreyfingar með leik eða æfingum og keppni á vegum félagsins. Félagssvæðið sé því jafnt opið félagsmönnum til leiks, æfinga og keppni, sem standa öllum opið til iðkunar á golfíþróttinni og almennrar útiveru. Félagið mun kappkosta að mæta eftirspurn í þessum efnum svo sem frekast er unnt.

4. Gæði.
Það er markmið GKG að sinna hverju því verkefni sem félagið tekst á hendur af vandvirkni og að sú þjónusta sem félagsmenn eða aðrir greiða fyrir standist fyllilega kröfur um gæði og sé vel samkeppnishæf við aðra klúbba. Það er jafnframt markmið GKG að ná í hverri keppni eins góðum árangri og frekast er unnt, að GKG félagar séu bæði félaginu, Garðabæ og Kópavogi til sóma í leik og starfi og að GKG hasli sér völl og styrki sig enn frekar sem leiðandi félag á sínu sviði.

5. Kynningarstarf.
Það er markmið GKG að standa þannig að kynningarmálum sínum í Garðabæ og Kópavogi að þátttaka í starfi félagsins sé sem víðtækust og stuðningur við daglegan rekstur þess sem öflugastur. Hvers kyns útgáfustarf, mótahald, samkomur eða annað sem gert er í nafni félagsins til kynningar eða fjáröflunar skal vera með þeim hætti að GKG sé sómi af.

6. Fjármál.
Það er markmið GKG að rekstur félagsins byggi á traustum fjárhagslegum grunni svo stöðugt megi bæta þá þjónustu og aðstöðu sem félagið lætur í té.

7. Stjórnun.
Það er markmið GKG að halda stjórnkerfi sínu virku og boðleiðum þess stuttum. Auk þess sem stjórnun félagsins miðast við skilvirkni í innri starfsemi er það stefna GKG að eiga gott samstarf við bæjarbúa, bæjaryfirvöld, fyrirtæki og félagasamtök í Garðabæ og Kópavogi. Félagið mun einnig leitast við að vera virkur þátttakandi í störfum lands- og sérsambanda íþrótta- og ungmennafélaga um land allt.