Stutt ágrip af sögu GKG frá 1994-2016

Ágripið er byggt á ca 100 bls. handriti  sem var tekið saman fyrir nokkrum árum og er geymt hjá framkvæmdastjóra GKG og á Héraðsskjalasafni Kópavogs.

 

1.     Forverar GKG

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, GKG, varð til við sameiningu tveggja golfklúbba, Golfklúbbs Garðabæjar og Golfklúbbs Kópavogs.

Golfklúbbur Garðabæjar.

Stofnfundur Golfklúbbs Garðabæjar var haldinn í Garðalundi 17. apríl 1986. Formaður var kosinn Björn Ólsen. Undir forystu hans var strax hafin leit að landi sem nota mætti undir golfvöll. Vífilstaðatúnin þóttu henta best vegna veðursældar og nálægðar við byggðina. Eftir langar og erfiðar viðræður við stjórnendur ríkisspítalanna náðist samkomulag um afnot af landinu.

Kjartan Borg var kosinn formaður klúbbsins 1989. Finnur Jónsson tók við formennsku 1992.skali

Vorið 1990 var keyptur gamall notaður söluskáli og fluttur á völlinn þar sem hann stóð til vorsins 2015 er hann varð að víkja fyrir núverandi íþróttamiðstöð. Hér má sjá skálann nýfluttan á staðinn. Golfskálinn breytti miklu fyrir félagsstarf í Golfklúbbi Garðabæjar.

Golfklúbbur Kópavogs

Stofnfundur Golfklúbbs Kópavogs var haldinn 2. júlí 1990 í Félagsheimili Kópavogs. Þorsteinn Steingrímsson var einróma kjörinn formaður klúbbsins.

Veturinn 1991-1992 fékk klúbburinn aðstöðu til æfinga og kennslu í kjallara Sundlaugar Kópavogs.

Klúbburinn vann að því að fá land undir golfvöll í austurhluta Fossvogsdals en samdi við Golfklúbb Garðabæjar um að Vífilsstaðavöllur yrði heimavöllur Golfklúbbs Kópavogs fyrst um sinn.

Golfvöllur í Fossvogsdal var samþykktur á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. júní 1993. Næsta skref var að breyta aðalskipulagi og koma inn litlum níu holu golfvelli í dalnum. Mikil andstaða var við golfvöll í Fossvogsdal og Samtökin Líf í Fossvogsdal afhentu bæjaryfirvöldum Kópavogs undirskriftarlista 3.439 íbúa í Reykjavík og Kópavogi gegn tillögu um golfvöll í dalnum.

Erfiðleikar hjá báðum klúbbunum 1993

Golfklúbbur Garðabæjar hafði rekið níu holu golfvöll á á túnunum í Vetrarmýri frá árinu 1989. Fullborgandi félagar voru um 250 manns. Búið var að samþykkja skipulag 18 holu golfvallar í Vetrarmýri og semja við Jan Sederholm um hönnum vallarins.

Fjármögnun byggingar 18 holu vallar og allra þeirra nauðsynlegu framkvæmda sem fylgdu var óleyst verkefni. Þrátt fyrir fjárstuðning bæjarstjórnar Garðabæjar var ljóst að hann myndi vart duga. Þá var ákveðið að leita sameiningar við Golfklúbb Kópavogs.

Haustið 1993, þegar stefndi í að ekkert yrði af golfvelli í Fossvogsdalnum, höfðu hafist óformlegar viðræður á milli klúbbanna um hugsanlega sameiningu.

2.     Stofnun GKG 24. mars 1994

Formlegar viðræður um sameiningu Golfklúbbs Garðabæjar og Golfklúbbs Kópavogs hófust í desember 1993. Í þeim tóku þátt fulltrúar klúbbanna og fulltrúar bæjarstjórna Garðabæjar og Kópavogs. Viðræðurnar leiddu fljótt til niðurstöðu. Á stofnfundi Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) sem haldinn var í Garðalundi 24. mars 1994 var samþykktur samningur á milli bæjarstjórna Garðabæjar og Kópavogs annars vegar og hins nýstofnaða klúbbs hins vegar. Áður höfðu báðir klúbbarnir samþykkt að sameinast í einn klúbb og einnig samþykkt samninginn. Samningurinn fól í sér að bæði sveitarfélögin legðu fram jafnmikið fé til uppbyggingar á 27 holu golfvelli, golfskála, æfingaaðstöðu, áhaldahúsi, bílastæðum og öllu öðru sem talið væri nauðsynlegt fyrir golfaðstöðu í besta gæðaflokki.

Mikil ánægja var með samninginn við sveitarfélögin og bjartsýni ríkti á meðal félagsmanna í hinum nýstofnaða GKG. Finnur Jónsson var kosinn formaður og á fundinum voru enn fremur samþykkt lög klúbbsins sem öðluðust þá þegar gildi.

fyrsta-stjorn

Fyrsta stjórn GKG

Fremri röð f.v.:  Þorsteinn Steingrímsson, Unnur Sæmundsdóttir , Finnur Jónsson, Sigrún Ingólfsdóttir, Guðmundur Bjarni Sigurðsson.

Aftari röð f.v.: Egill Jónsson, Halldór Snorrason, Gunnlaugur Sigurðsson, Kjartan Gústavsson, Kristinn Kristinsson, Ævar Auðbjörnsson, Halldór S. Magnússon. Á myndina vantar Ólaf H Þorsteinsson

 

 

 

3.     Golfvellirnir

Síðari hluta árs 1992 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar skipulag sem gerði ráð fyrir 18 holu golfvelli í Vetrarmýri. Landið sem klúbburinn fékk úthlutað undir völlinn var þó aðeins um 40 ha. og var því með naumindum unnt að koma golfvellinum fyrir ásamt því nauðsynlegasta. Þá var gert samkomulag við Jan Sederholm um hönnun 18 holu vallar með öllu sem honum fylgir. Vorið 1993 fékk stjórnin teikningar frá honum sem hún var ánægð með.

Fyrri áfangi: 9 holur austast á svæðinu (1993-1996)

Uppbyggingu 18 holu golfvallar samkvæmt teikningu Sederholms var skipt í tvo megináfanga. Í fyrri áfanga voru byggðar samtímis upp frá grunni níu holur austan við gamla níu holu völlinn. Fyrri áfangi vallarins tekinn í notkun við hátíðlega athöfn 13. júlí 1996.

undirskrift

Undirritun samnings á milli GKG og sveitarfélaganna um framlag þeirra til að ljúka við 18 holu golfvöll í Vetrarmýri, byggja æfingasvæði og starfsmanna- og áhaldahús. F.v.: Arnór Pálsson forseti bæjarstjórnar Kópavogs, Gunnlaugur Sigurðsson formaður GKG og Guðjón E. Friðriksson bæjarritari Garðabæjar.

Seinni áfangi: Níu holur vestast í stað gamla vallarins (1997-2002)

Strax frá vígslu fyrri áfanga 1996 var hafist handa við uppbyggingu seinni áfanga. Ákveðið var að haga framkvæmdum með þeim hætti að taka gömlu brautirnar eina og eina úr notkun þannig að ávallt væru leiknar 18 holur.

Árið 2002 var loks lokið við 18 holu völlinn eins og hann var upphaflega teiknaður og var hann leikinn þannig til 2007.

Stækkun Vífilsstaðavallar

Í framhaldi af sameiningu Golfklúbbs Garðabæjar og Golfklúbbs Kópavogs og stofnun Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar var þann 13. apríl 1994 undirritaður samningur um stuðning bæjarfélaganna við hinn nýstofnaða klúbb. Þar lagði Kópavogur til land undir níu golfholur, par 36, á aðliggjandi svæði handan bæjarmarkanna sem nánar yrði kveðið á um í deiliskipulagi sem þá var í vinnslu. Frá upphafi var gert ráð fyrir að þær yrðu leiknar sem 4. til 12. hola á 18 holu velli GKG.

Hönnun á stækkun vallarins

Þegar ljóst varð árið 2001 að Kópavogsbær vildi ljúka stækkun vallarins sem fyrst, ákvað stjórn GKG  að fela Andrési I. Guðmundssyni, félaga í GKG, að vinna endanlega tillögu og teikningu af vallarstækkuninni miðað við þáverandi deiluskipulag. Svæðið fyrir golfvöll hafði verið minnkað mjög frá því sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

andres 

Andrés I. Guðmundsson var formaður vallar- og húsnefndar á miklum umbrotatíma 1996-2000. Hann hafði forystu um undirbúning að byggingu Leirdalsvallar og tók svo að sér hönnun vallarins. Hann hefur síðan staðið fyrir ýmsum breytingum á vellinum og reyndar á báðum völlunum.

Andrés lagði áherslu á að brautir og flatir yrðu sem mest í stíl við það sem Sederholm hafði áður teiknað á Vífilsstaðavelli, sérstaklega vegna þess að ljóst var að þessar brautir yrðu leiknar sem 4. til 12. braut 18 holu golfvallar.

 

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna vorið 2006 var  stækkun vallarins í Leirdal formlega afhent GKG að viðstöddum forystumönnum beggja sveitarfélaganna. Völlurinn var opinn félögum GKG til golfleiks í eina viku þá um haustið. Hann var að fullu tekinn í notkun vorið 2007.

undirsrift-2006

Laugardaginn 20. maí 2006  var undirritaður samningur milli GKG, Kópavogs og Garðabæjar.

Frá vinstri: Stefán Konráðsson formaður íþrótta og tómstundaráðs Garðabæjar. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi og Guðmundur Oddsson formaður GKG.

 

 

 

Mýrin: Níu holu völlur.

Þegar golfbrautirnar í landi Kópavogs voru teknar í notkun að fullu vorið 2007 var Vífilsstaðavelli skipt upp í tvo golfvelli, annars vegar sem hluta af 18 holu velli, par 71, og hins vegar níu holu völl, par 34, í Vetrarmýri.

4.     Barna- og unglingastarf

Frá stofnun GKG hefur stjórnin ávallt lagt mikla áherslu á öflugt barna- og unglingastarf. Það hefur verið gert með því að ráða sem hæfasta kennara hverju sinni, reyna að skapa sem besta æfingaaðstöðu allan ársins hring og veita árlega nokkru fé til eflingar á starfi unglinganefndar.

Farið hefur verið í heimsókn í grunnskóla beggja bæjanna og 12 ára börnum kynnt íþróttin. Jafnframt hafa kynningardagar verið haldnir og íþróttakennurum boðið að koma með nemendur sína á golfsvæðið til að kynnast golfinu.

Á sumrin eru haldin námskeið fyrir börn og unglinga sem ekki eru í klúbbnum. Þessi námskeið njóta sívaxandi vinsælda og hafa allt að 500 börn og unglingar sótt þau árlega.

Á síðustu árum hefur enginn klúbbur á Íslandi haft fleiri börn og unglinga innan sinna raða og stöðugt bætast fleiri í hópinn. Árið 2013 var svo komið að GKG hafði algera yfirburði yfir aðra golfklúbba landsins varðandi fjölda barna og unglinga.

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

  1. apríl 2005 var klúbburinn tilnefndur fyrirmyndarfélag ÍSÍ en það er gæðaviðurkenning Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir barna- og unglingastarf og veitir klúbbnum rétt til þess að kalla sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. GKG var fyrsti golfklúbburinn á Íslandi til þess að hljóta þessa viðurkenningu ÍSÍ. Tilnefningin var endurnýjuð á vígsludegi nýju íþróttamiðstöðvarinnar 9. apríl 2016.

5.     Afreksstefna og keppnisgolf

Á fyrstu starfsárum GKG var lítill áhugi og skilningur innan stjórnar og á meðal flestra félagsmanna að styðja ætti við bakið á bestu kylfingum klúbbsins með fjárstyrkjum.

Afreksstefna GKG var samþykkt árið 2002 og ráðinn þjálfari fyrir afrekskylfinga. Hófst þá fyrir alvöru markvisst uppbyggingarstarf sem hefur verið viðhaldið og endurbætt reglulega síðan. Sett var upp kerfi sem kallað var Framtíðarkylfingar GKG, eða Fóstrakerfið, til að miðla þekkingu og reynslu bestu kylfinganna til þeirra sem eru ungir og efnilegir.

Sérstakt íþróttasvið með íþróttastjóra var stofnað árið 2002. Afreksstefnan, góðir þjálfarar og vel skipulagðar æfingar bestu kylfinga klúbbsins skiluðu klúbbnum fljótlega í fremstu röð golfklúbba landsins. Árið 2007 var síðan gerð ný sóknaráætlun í afreksmálum sem skilað hefur góðum árangri.

6.     Helstu golfmót hjá GKG

Strax árið 1997 eða á fjórða starfsári klúbbsins sá GKG í fyrsta skipti um mót á vegum Golfsambands Íslands (GSÍ). Þetta var sveitakeppni í 2. deild, bæði karla og kvennaflokki.

Næstu ár voru GSÍ mót haldin reglulega hjá GKG, einkum í flokkum unglinga. Árið 2004 var sveitakeppni í 2. deild kvenna og ári síðar LEK mót. Fyrsta Íslandsmótið hjá GKG var haldið 2006, en það var Íslandsmót unglinga í holukeppni. Sveitakeppni GSÍ í 1. og 2. deild kvenna var haldið árið 2010 og  ári síðar Sveitakeppni GSÍ í 1. deild karla.

Árið 2012 var Íslandsmótið í holukeppni haldið hjá GKG og sama ár LEK viðmiðunarmót og ári síðar Íslandsmótið í holukeppni í unglingaflokkum ásamt einu móti Eimskipsmótaröðinni. Á 20 ára afmælisárinu 2014 sá GKG svo í fyrsta sinn um Íslandsmótið í höggleik.

7.     Landleigumálið

Sá hluti golfvalla GKG, sem er í Garðabæ, er á jörðinni Vífilsstaðir í Garðakaupstað, sem Ríkisspítalarnir (RSP) höfðu umsjón með fyrir hönd fjármálaráðuneytisins. Fyrsti leigusamningurinn við RSP var gerður 10. júní 1988. Samningnum var breytt mörgum sinnum allt til ársins 2014 að fjármálaráðherra tók landið úr umsjón RSP.

Strax um seinustu aldamót hafði komið í ljós að stjórnendur RSP lögðust eindregið gegn öllum áformum klúbbsins um varanlegar byggingar á landinu. Á þessu varð ekki breyting fyrr en umsjón með landinu var færð til fjármála- og efnahagsráðuneytisins árið 2014.

8.     Íþróttamiðstöðin

Nýtt klúbbhús GKG hafði verið til umræðu í meira en áratug. Stjórnendur klúbbsins höfðu unnið mikið að framgangi málsins og aldrei lagt árar í bát. Fremstur í þeirri baráttu stóð fyrrverandi formaður GKG, Guðmundur Oddsson.

  1. mars 2014 var haldið upp á 20 ára afmæli GKG með veglegri hátíð. Þá var undirrituð viljayfirlýsing um stuðning sveitarfélaganna við byggingu félags- og íþróttaaðstöðu GKG. Ennfremur fór fram kynning á fyrirhugaðri byggingu og forseti GSÍ flutti ávarp og ræddi m.a. um einstaklega þróttmikið og vandað barna- og unglingastarf hjá klúbbnum.

Helgi Már Halldórsson, arkitekt og félagi í GKG, kynnti drög að teikningum að nýrri íþróttamiðstöð GKG í máli og myndum þar sem fram kom m.a. að heildarkostnaður væri áætlaður um 600 mkr. Á næstu mánuðum var gengið frá veglegum styrktarsamningum frá báðum sveitarfélögunum og lokið við frágang á öllum teikningum.

Í ársbyrjun 2015 var undirritaður samningur við GG verk um byggingu íþróttamiðstöðvar sem yrði afhent tilbúin í mars 2016. Framkvæmdir gengu mjög vel og allar áætlanir stóðust nánast fullkomlega.

Fyrsta skóflustungan laugardaginn 28. febrúar 2015

skoflustunga

Guðmundur Oddsson formaður GKG og Gunnlaugur Sigurðsson fyrrverandi formaður klúbbsins tóku fyrstu skóflustungu að Íþróttamiðstöð GKG. Þeim til halds og trausts voru bæjarstjórar Kópavogs og Garðabæjar þeir Ármann Kr. Ólafsson og Gunnar Einarsson. Fyrir miðju er framkvæmdastjóri GKG Agnar Jónsson.

 

Vígsluhátíðin laugardaginn 9. apríl 2016

Fjöldi gesta og félaga GKG tóku þátt. Guðmundur Oddsson formaður byggingarnefndar sagði frá framkvæmdum. Bæjarstjórarnir og forseti GSÍ fluttu ávörp sem og menntamálaráðherra sem lék einnig frumsamið verk á píanó.

opnun-ithrottamidstodvvar

Finnur Sveinbjörnsson, formaður klúbbsins, ávarpar samkomuna. Á myndinni eru einnig bæjarstjórarnir og Guðmundur Oddsson.

Tekið saman í maí 2016 af Guðmundi Ólafssyni og Gunnlaugi Sigurðssyni.