Rúmlega 90 keppendur létu rigninguna ekki slá sig út af laginu s.l. laugardag og léku á als oddi í Bændaglímunni, lokamóti ársins.

Skipt var í tvö lið undir stjórn úrvalsbændanna Venna páer og Tóta draums og leikið var eftir fjögurra manna Texas scramble fyrirkomulagi.

Hart var barist að vanda og endaði glíman þannig að Venni og hans búalið sigruðu naumlega! Staðan í rimmum þeirra félaga er þá Venni 3, Tóti 1.

Besta skor liðs í mótinu kom frá liði Gumma vallarstjóra, en með honum voru Guðni, Andrés og Pétur. Þeir höluðu inn 51 punkt! Í öðru sæti lentu Björn Steinar, Hulda, Raggi og Tobba með 47 punkta.

Að leik loknum snæddu keppendur kræsingar að hætti Vigga í Mulligan. Loks kom DJ Fox og þeytti skífum. Hægt er að skoða myndir hér.

Bændaglíman er ávallt lokamót tímabilsins en það er ennþá góður hiti í kortunum þannig að völlurinn er áfram opinn og látum ekkert stoppa okkur að spila áfram.

Bestu þakkir fyrir frábæra Bændaglímu og enn betra golfsumar, sem lengi verður í minnum haft fyrir veðursæld og golfvöll sem aldrei hefur verið betri.

Framtíðin er svo sannarlega björt hjá GKG!