Venni Páer rétt marði Íslenska Drauminn

Home/Uncategorized/Venni Páer rétt marði Íslenska Drauminn

Venni Páer rétt marði Íslenska Drauminn

Lokamót ársins, Bændaglíman var haldin á báðum völlum GKG laugardaginn 7. september. Þetta var í fyrsta sinn sem Bændaglíman er spiluð bæði á Mýrinni og Leirdalsvelli enda var sett þátttakendamet, 150 kylfingar mættu til leiks í þessu stórskemmtilega móti.

Þeir Vernharður Þorleifsson (Venni Páer) og Þórhallur Sverrisson (Íslenski Draumurinn) voru bændur mótsins. Þetta er í þriðja sinn sem þeir etja kappi saman. Það var jafnt á með þeim köppum fyrir mótið,  höfðu þeir unnið sitt mótið hvor. Allt var því lagt í sölurnar því þeir bændur keppa um svokallaða vallarstjórastjörnu og er hún bróteruð fyrir ofan merki GKG að leik loknum.

Þeir bændur byrjuðu daginn snemma og tóku 18 holur sín á milli. Þegar ræst var út af öllum teigum um hádegið, hafði Íslenski Draumurinn fjögurra punkta í forskot á Venna Páer. Það er skemmst frá því að segja að Venni náði að vinda ofan af klúðrinu um morguninn, kom sterkur til leiks eftir hádegi og sigraði hans lið á endanum með fjórum punktum.

Það voru þrjú lið jöfn í fyrsta sæti með 49 punkta. Þegar seinni níu holurnar voru skoðaðar var eitt lið sem stóð upp úr, tók meðal annars örn á 18 holu. Það holl skipuðu þau Ásta Kristín Valgarðsdóttir, Gísli Þorgeirsson, Rósa Þórðardóttir og Jóhann Jóhannsson og hlutu þau glaðning frá Ölgerðinni.

Vignir vert í Mulligan tók á móti keppendum eftir leik og svignuðu veisluborðin undan kræsingunum. Var góð stemning fram eftir kvöldi, þá meiri hjá sumum en öðrum.

Bændaglíman er síðasta mót sumarsins og þakkar starfsfólk og mótanefnd GKG öllum þeim kylfingum sem tekið hafa þátt í þeim fjölmörgu mótum sem haldin voru hjá GKG þetta árið.

By |09.10.2017|