Hér fyrir neðan er lýsing á hverri holu á báðum völlum, smellið bara á viðkomandi holu til að sjá mynd og lýsingu:
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 7. | 381 m | 356 m | 338 m | 325 m |
Fyrsta holan á Leirdalsvelli er bein og breið par 4 hola.
Upphafshöggið er slegið niður á brautina og er gott fyrir þá höggstyttri að reyna að koma sér að brekkunni og láta boltann rúlla niður. Vinstra megin eru þrjár sandglompur og hægra megin mói, svo hér skiptir máli að vera beinn í fyrsta höggi hringsins. Lendingarsvæðið er þó stærra en útsýnið af fyrsta teig gefur til kynna.
Flötin er L-laga og getur innkoman á hana verið ansi strembin ef flaggið er staðsett aftarlega, vinstra megin á flötinni. Hólar eru í kringum flötina og sandglompa hægra megin sem ber að forðast. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
3 | 15. | 185 m | 154 m | 148 m | 131 m |
2. hola er strembin, miðlungslöng par 3 hola. Flötin er stór og mikil og hallar öll að kylfingnum. Undanfarin sumur hefur flötin verið með þeim allra hörðustu og hröðustu á vellinum og því væri skynsamlegt fyrir kylfinga að reyna að koma boltanum fyrir neðan pinnann, svo auðveldara pútt upp í móti bíði þeirra þegar þeir koma á flötina.
Hér skiptir miklu að hitta flötina, því hún er vel varin af stórri glompu og skógi vinstra megin og glompu, þykku grasi og vallarmörkum hægra megin. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
5 | 5. | 464 m | 429 m | 422 m | 391 m |
3. holan á vellinum er fremur löng par 5 hola en þeir allra högglengstu geta þó náð inn á flöt í tveimur höggum. Upphafshöggið er einfalt, brautin bein og breið og ekki mikið um hindranir ef kylfingar halda boltanum í réttri stefnu.
Annað höggið er þó flóknara og býður upp á ýmsa möguleika. Kylfingar standa frammi fyrir mikilli brekku og geta valið að leggja boltann á stallinn fyrir neðan flötina eða reynt að koma honum upp á efri stallinn, þar sem flötin bíður. Mikið er um hindranir í brekkunni, þykkur kargi og móar hægra megin en glompa og lúpínur vinstra megin.
Flötin er fremur lítil, en hefur þó verið stækkuð töluvert á undanförnum árum, og getur höggið inn á hana verið erfitt í miklum vindi. Hættulegt er að fara of langt í innáhögginu því þar er mikill hóll og á bak við hann móar. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
3 | 13. | 125 m | 111 m | 111 m | 102 m |
4. holan er fyrsta holan í Leirdalnum sjálfum og tekur dalurinn vel á móti kylfingum með þessari vinalegu par 3 holu. Holan er stutt og einföld.
Flötin er stór og þægilegt fyrir kylfinga að hitta hana frá teignum. Misstakist það getur holan verið fljót að refsa því vinstra megin við flötina er stutt í vallarmörk. Hægra megin eru tvær glompur og fyrir aftan er hóll sem óþægilegt er að slá úr. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 3. | 354 m | 332 m | 325 m | 307 m |
5. holan er par 4 hola sem getur reynst erfið í spilun, sérstaklega í mótvindi. Upphafshöggið þarf að vera nákvæmt ætli kylfingar sér á brautina því hún er varin af karga og trjám hægra megin en miklum sandglompum vinstra megin. Þá þurfa þeir högglöngu að hafa áhyggjur af tjörninni sem er hægra megin við brautina. Sumir kylfingar hafa brugðið á það ráð að miða hægra megin við tjörnina í uppafshögginu og fara þannig inn á 12. holu. Gefur það öðru vísi innkomu inn á flötina sem þarf þó ekki að vera betri en af 5. holunni sjálfri. Ber einnig að vara við þessu sökum leikhraða og öryggis þeirra kylfinga sem leika 12. holuna.
Flötin er stór og myndarleg og er myndar með hlíðunum sem umlykja hana einhvers konar skál. Nákvæmni er þörf í því nokkrar glompur verja hana fyrir of stuttum höggum. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 11. | 372 m | 342 m | 333 m | 303 m |
6. hola vallarins er erfið hola sem krefst nákvæmni af kylfingum. Upphafshöggið er eitt það erfiðasta á hringnum, blint högg upp í móti á lítið lendingarsvæði. Hér taka margir kylfingar 3-tré eða járn fyrir nákvæmni og reyna þannig að komast hjá því lenda í stóru sandglompunni vinstra megin og tjörninni eða karganum hægra megin.
Flötin er stór og mikil, á eins konar stalli umkringd sandglompum. Vandasamt getur verið að stöðva boltan á flötinni sökum þess hvernig hún hallar og því að undanfarin sumur hefur hún verið mjög hörð. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
5 | 1. | 509 m | 488 m | 478 m | 456 m |
7. holan er lengsta hola vallarins, rétt rúmlega hálfur kílómetri af hvítum teigum. Brautin er þröng og því skiptir nákvæmni máli, ætli kylfingar sér að ná góðu skori á þessari holu. Í upphafshögginu ber að varast glompuna hægra megin sem gleypir furðu marga bolta.
Annað höggið er sennilega erfiðast, en með góðu höggi geta kylfingar skilað sér langleiðina inn á grín. Miklu máli skiptir að fara ekki mikið út fyrir brautina því stutt er í vandamálin, glompur, vatn og mikið gras.
Flötin er ein sú stærsta á vellinum og liggur í laut, umkringd gróðri og sandglompum. Innáhöggið er því vandasamt en ólíkt flötinni á 6. holu tekur þessi ágætlega við geta góðir kylfingar því “barið” boltann inn að pinna áhyggjulausir. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 17. | 326 m | 307 m | 298 m | 281 m |
8. holan er skemmtileg par 4 hola sem liggur í hundslöpp til vinstri. Í upphafshögginu er algjörlega bannað að draga boltann til vinstri því þá er hætta á að hann lendi utan vallarmarka. Einnig er hér algjörlega bannað að slá of langt því þá bíða boltans sandglompur eða önnur verri ævintýri.
Flötin er myndarleg á tveimur stöllum, varin af nokkrum glompum sem þó ættu ekki að þvælast mikið fyrir kylfingum. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
3 | 9. | 163 m | 147 m | 142 m | 121 m |
9. holan er erfið par 3 hola. Teigurinn er töluvert fyrir ofan meðalstóra flötina og hér skiptir miklu fyrir kylfinga að vera nákvæmir. Séu höggið of stutt eða til hægri endar boltinn í miklum móum sem erfitt getur verið að bjarga sér frá. Upphafshöggið getur verið mjög vandasamt því oft er ansi vindasamt á þessum hluta vallarins.
Flötin hallar öll að kylfingum og leka flestir boltar af henni til hliðar sé höggið ekki nákvæmt. Þrjár erfiðar sandglompur eru sitt hvoru megin við flötina og erfitt getur verið að koma boltanum nálægt pinna úr þeim. Kylfingar mega alls ekki vera of langir og slá yfir flötina því nánast ómögulegt er að stöðva boltann á flötinni þegar vippað er upp á flötina aftan frá. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 4. | 395 m | 362 m | 354 m | 332 m |
10. holan er ein erfiðasta hola vallarins, löng par 4 hola sem hreinlega ögrar kylfingum.
Teighöggið er afar mikilvægt, því öll högg sem ekki enda á brautinni bjóða upp á vandræði fyrir innáhöggið. Meðfram brautinni vinstra megin er kargi og nokkrar sandglompur sem gleypa í sig bolta. Enn lengra til vinstri er mói sem er afar erfiður viðureignar. Ekki geta kylfingar þó miðað hægra megin við brautina því þar tekur við kargi og nokkur tré. Ennfremur er innkoman á flötina þaðan nánast ómöguleg.
Flötin er stór, L-laga og hallar öll að kylfingum. Innáhöggið er erfitt fyrir kylfinga og krefst mikillar nákvæmni, því öll högg sem ekki hitta flötina annaðhvort enda í glompunni hægra megin eða leka niður af stallinum sem flötin er á. Getur reynst vandasamt að vippa þaðan. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
3 | 14. | 134 m | 116 m | 106 m | 88 m |
Eftir erfiða 10. holuna bíður vinaleg 11. holan eftir kylfingum.
Hér er um stutta par 3 holu að ræða. Flötin er feykistór og myndarleg og ekki miklum vandkvæðum bundið að hitta hana. Ef það mistekst þá er hún varin af sandglompum sem geta reynst kylfingum skeinuhættar, auk þess sem hún er á myndarlegum stalli sem erfitt getur verið að vippa upp á mistakist upphafshöggið.
| |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
5 | 12. | 500 m | 450 m | 421 m | 388 m |
Eftir að kylfingar hafa kastað mæðinni í áningarhúsinu við 12. teig bíður þeirra síðasta holan í Leirdalnum sjálfum, fremur stutt par 5 hola.
Upphafshöggið er fremur einfalt, brautin liggur bein og breið og gott getur verið að vera hægra megin á henni til að auðvelda innkomu á flötina seinna meir. Högglangir kylfingar geta auðveldlega með löngu og rétt staðsettu teighöggi komist inn á flötina í tveimur höggum. Stranglega er bannað að vera vinstra megin við brautina efitr upphafshöggið því þar er glompa, kargi og vallarmörk.
Flötin liggur til vinstri við brautina og getur reynst erfitt að hitta hana ef ekki er vel stillt upp fyrir þriðja högg. Vinstra megin við hana er mikill skógur og hægra megin tvær stórar glompur. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
3 | 10. | 150 m | 143 m | 124 m | 118 m |
13. holan er fjórða holan í landi Vífilsstaða, ein af þessum “gömlu”. Hún er nokkuð strembinn par 3 hola sem krefst nákvæmni af kylfingum.
Flötin liggur töluvert fyrir ofan teigin og snýr þannig að kylfingum að erfitt getur reynst að ná inn á pinna. Fjórar sandglompur, þykkur kargi og hólar og hæðir bíða boltum sem villast af leið á þessari erfiðu par 3 holu. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
5 | 18. | 444 m | 425 m | 408 m | 392 m |
14. holan er örstutt par 5 hola og af mörgum talin ein sú allra auðveldasta á vellinum. Kylfingar slá upphafshöggið töluvert niður í móti. Reyndar getur upphafshöggið verið töluvert flókið, en algjört lykilatriði er að það sé beint. Ef það villist af leið bíða óvægnar lúpínur beggja megin brautarinnar.
Takist kylfingum hins vegar vel upp með upphafshöggið og ná niður fyrir lúpínurnar þá er leiðin bein og breið að stórri flötinni. Hér geta margir náð inn á flöt, eða að minnsta kosti mjög nálægt flötinni í tveimur höggum.
Flötin er stór og myndarleg en hefur verið mjög hörð og þar af leiðandi hröð undanfarin ár. Er því rétt fyrir kylfinga að gæta sín þegar þeir reyna við örninn eða fuglinn, flötin á það til að vera erfið viðureignar. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 2. | 358 m | 348 m | 338 m | 262 m |
15. holan er bein og fremur einföld par 4 hola. upphafshöggið er þó sennilega eitt það erfiðara á vellinum fyrir meðalkylfinginn, en langt er frá teig að braut og ekki má höggið víkja mikið til hægri eða vinstri því þar bíða hliðarvatnstorfærur annars vegar og vallarmörk hins vegar.
Þegar á brautina er komið bíður annars frekar einfalt innáhögg á myndarlega flöt á þremur pöllum. Hún er varin af fjórum stórum glompum að framan og fyrir aftan hana eru tvær hrikalegar pottglompur sem geta leikið kylfinga grátt. Þær eru þó ekki eins mikið í leik og ætla mætti, en vara ber kylfinga við að taka um of á því þegar innáhöggið er slegið. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
5 | 8. | 519 m | 478 m | 439 m | 436 m |
16. holan er ein af skemmtilegri holum vallarins, krefjandi og löng par 5 hola sem getur gefið vel af sér en er fljót að refsa fyrir mistök.
Teigurinn liggur mun hærra en brautin og er lykilatriði fyrir kylfinga að hitta hana í upphafshögginu. Vinstra megin við hana eru hólar með mjög þykkum karga sem afar erfitt getur verið að slá upp úr. Leki upphafshöggið of mikið til hægri bíður boltans blaut lega.
Takist upphafshöggið vel bíður kylfinga strembið annað högg. Flestir ná yfir fremur stór móasvæði sem sker miðja brautina. Á bak við það er grænt svæði sem kylfingar verða að hitta á ætli þeir sér að eiga möguleika á góðu skori á þessari holu. Leiti annað höggið til vinstri bíður geysierfitt innáhögg úr hlíðinni sem er fyrir neðan teiginn á þriðju holu. Sveigi boltinn til hægri er mikil hætta á að hann lendi í stóru vatni sem liggur hægra megin við brautina.
Innáhöggið er yfirleitt fremur einfalt, enda er flötin stór og auðvelt að hitta hana. Hægra megin við flötina er sandglompa sem á ekki að valda kylfingum of miklu hugarangri. | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
3 | 16. | 114 m | 112 m | 108 m | 97 m |
17. holan er mjög stutt par 3 hola sem er þó sýnd veiði en ekki gefin fyrir kylfinga.
Tvær myndarlegar sandglompur liggja fyrir framan meðalstóra flötina og verja hana fyrir of stuttum upphafshöggum. Slái kylfingar of langt endar boltinn í hól sem er þakinn þykkum karga. Erfitt getur verið að vippa út úr honum og stöðva boltann á flötinni, sem þá hallar að mestu leyti frá kylfingnum | |
PAR | Fgj. | Hvítir | Gulir | Bláir | Rauðir |
4 | 6. | 379 m | 328 m | 285 m | 280 m |
Lokahola vallarins er afar forvitnileg og skemmtileg lokahola. Hún er meðallöng par 4 hola sem liggur öll upp í móti, í hundslöpp til vinstri.
Upphafshöggið krefst töluverðar nákvæmni af kylfingum. Lendi boltinn utan brautar hægra megin bíður þykkur kargi kylfinga, auk þess sem að innáhöggið verður töluvert lengra. Séu kylfingar of vinstrisinnaðir getur það þýtt mikil vandamál. Risastór glompa er vinstra megin við brautina og vinstra megin við hana eru móar, göngustígur og tré sem þvælast fyrir kylfingum. Besta upphafshögg hér skilar boltanum aðeins vinstra megin á brautina, við hliðina á eða fram yfir stóru sandglompuna.
Flötin bíður síðan kylfinga upp við skálann, 8-laga og snýr á hlið að kylfingum. Innáhöggið getur verið flókið og góð lengdarstjórnun er mikilvæg. Betra er fyrir kylfinga að vera ögn of stuttir hér, því ekkert ver flötina að framan. Sé innáhöggið of langt er aftur á móti hóll og þykkur kargi fyrir aftan flötina sem afar erfitt getur verið að vippa upp úr. | |