Skorkort Mýrinnar
Athugið að breytingar hafa verið gerðar á Mýrinni sem ekki hafa verið uppfærðar hér að neðan.
Þetta eru helstu breytingarnar:
5. holan er nú par 4.
7. holan er nú par 5.
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
4 | 2 | 336 m | 331 m | 283 m |
1. holan á Mýrarvellinum er fremur stutt par 4 hola sem liggur í hundslöpp til hægri. Í upphafshögginu þurfa kylfingar að gæta sín á því að fara ekki til hægri því þar eru vallarmörk. Vinstra megin við brautina er þykkur kargi sem oft er erfiður viðureignar. Flötin er meðalstór og er aðeins varin að tveimur sandglompum. Innáhöggið ætti því að vera fremur einfalt fyrir kylfinga. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
3 | 8 | 125 m | 115 m | 104 m |
2. holan er fremur stutt en strembin par 3 hola. Flötin er ílöng og vel varin af hólum með þykkum karga, svo innáhöggið getur reynst kylfingum flókið. Vinstra megin meðfram flötinni er hliðarvatnstorfæra og á milli hennar og flatarinnar mjög þykkur kargi sem erfitt er að koma sér upp úr. Hægra megin meðfram brautinni og flötinnni liggur göngustígur og enn utar skurður með vatni í. Liggur hann í sveig aftur fyrir flötina og tekur flesta bolta sem fara of langt frá kylfingum. Skiptir því nákvæmni hér máli ætli kylfingar sér að hitta flötina, en erfitt getur verið að ná boltanum alveg inn að pinna. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
4 | 5 | 293 m | 285 m | 254 m |
3. holan er sennilega einfaldasta hola Mýrarvallarins, mjög stutt par 4 hola sem býður upp á mikil tækifæri fyrir kylfinga. Upphafshöggið er einfalt og er mikið svæði sem kylfingar geta unnið með. Brautin er fremur breið og báðum megin við hana er kargi sem yfirleitt er ekki erfiður viðureignar. Varast ber þó að fara of mikið af leið því hliðarvatnstorfæra er hægra megin við kargann og vinstra megin eru nokkrar sandglompur sem þeir allra högglengstu þurfa að hafa áhyggjur af. Reyndar er það svo að þeir sem slá lengst eiga mikinn möguleika á að ná inn á eða að flötinni í fyrsta höggi. Flötin sjálf er mjög stór og auðvelt er að komast inn á hana. Tvær sandglompur verja hana að framan og hægra megin við hana eru vallarmörk. Annars er hún svo stór að innáhöggið á ekki að valda kylfingum teljandi vandræðum og yfirleitt hægt að “berja” boltann inn að pinna. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
3 | 7 | 139 m | 133 m | 123 m |
4. holan er fremur löng par 3 hola sem getur strítt kylfingum töluvert. Meðfram henni allri liggja vallarmörk vinstra megin og hliðarvatnstorfæra hægra megin, svo vanda þarf til verka við innáhöggið. Aðkoman að flötinni getur verið strembin og skiptir miklu máli að stjórna lengd innáhöggsins vel. Sé það of langt tekur á móti boltanum hóll og fyrir aftan hann stór skurður. Fyrir framan flötina er stór sandglompa sem tekur marga bolta, sérstaklega þá sem miðað er inn að pinna. Vinstra megin er svo stór tjörn, en hún er reyndar varla í leik nema höggið misheppnist mjög illa. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
5 | 1 | 436 m | 420 m | 202 m |
5. hola er löng og bein par 5 hola sem býður upp á ýmis tækifæri fyrir kylfinga. Þeir högglengstu geta auðveldlega komist inn á flötina í tveimur höggum. Brautin sjálf er fremur þröng, en það kemur þó ekki að sök því ekki eru teljandi vandræði fyrir utan brautina nema kargi, sem reyndar er yfirleitt mjög þykkur. Þó liggja vallarmörk vinstra megin meðfram allri holunni og innar móar, en yfirleitt valda þau kylfingum ekki teljandi vandræðum. Flötin er stór og liggur fyrir ofan kylfinga þegar innáhöggið er slegið. Hún er ekki varin af neinum sérstökum hættum, en sandglompan hægra megin við hana er yfirleitt ekki í leik. Hér er auðvelt að næla sér í góðan fugl. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
4 | 6 | 325 m | 281 m | 276 m |
6. holan er fremur stutt en flókin par 4 hola. Hún er fyrri holan af vatnaholunum svokölluðu og skiptir miklu máli fyrir kylfinga að vera nákvæmir. Stórar tjarnir liggja báðum megin við þrönga brautina og því verður að vanda til verka við upphafshöggið. Oft er sniðugt að taka hér 3-tré, 5-tré eða jafnvel járn af teig og stilla boltanum upp á góðan stað, því brautin er ekki löng og auðvelt er að koma sér inn á flöt nánast hvaðan sem er af brautinni. Flötin sjálf er 8-laga, eins og svo margar aðrar á vellinum, og ekki sérstastaklega varin að framanverðu. Er því betra að vera of stuttur en of langur því að baki hennar er stór hóll og þar aftan bleyta sem erfitt er að bjarga sér úr. Hægra megin við flötina er tjörn sem ber að varast. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
4 | 3 | 368 m | 324 m | 318 m |
7. holan er ansi strembin og löng par 4 hola. Klárlega ein af erfiðari holum vallarins. Upphafshöggið getur reynst kylfingum erfitt því stórar tjarnir og vallarmörk liggja hægra megin meðfram brautinni. Engar sérstakar hættur eru vinstra megin, en lendi boltinn þar þýðir það að nánast ómögulegt er að komast inn á flöt í tveimur höggum. Þeir allra högglengstu ná yfir tjarnirnar tvær hægra megin og inn á miðpallinn á brautinni en þeir sem styttra ná verða að reyna að komast inn á braut, eins langt hægra megin á henni og þeir mögulega geta. Flötin sjálf er fremur lítil og vel varin af glompum, hólum og trjám. Innáhöggið þarf að vera mjög nákvæmt ætli kylfingar sér að ná góðu skori á þessari erfiðu holu. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
4 | 13 | 304 m | 244 m | 244 m |
8. holan er löng par 4 hola sem liggur öll upp í mót. Brautin er fremur breið og að frátöldum þremur glompum hægra megin er ekki mikið um hættur þegar upphafshöggið er slegið. Þægilegast er að vera vinstra megin á brautinni, jafnvel að fara aðeins út af henni vinstra megin því þar er best að slá innáhöggið inn á flötina. Flötin er myndarleg og hallar að kylfingum. Glompur verja hana hægra megin og hólar með þykkum karga eru vinstra megin og fyrir aftan hana. Gott er að ná inn á flötina í tveimur höggum, en ætli kylfingar sér að "klikka" er best að vera of stuttur og skilja eftir auðvelt vipp inná. |
PAR | Fgj. | Gulir | Bláir | Rauðir |
---|---|---|---|---|
3 | 9 | 130 m | 121 m | 121 m |
Mýrarvöllurinn endar með þægilegri par 3 holu sem getur samt refsað kylfingum harðlega. Flötin er stór og hallar að kylfingum. Hún er þó vel varin af glompum sem hreinlega sjúga í sig bolta. Allt í kringum hana er mjög þykkur kargi sem erfitt getur verið að bjarga sér úr. Sennilega er best fyrir kylfinga, sem ekki treysta nógu vel á "löngu" járnin sín, að taka einni kylfu minna og miða fyrir framan flötina. Þar hallar brautin aðeins frá kylfingum og því hægt að vonast eftir góðu rúlli inn á flötina. |