Minningarmót GKG hefur verið fastur liður í okkar sumarstarfi þar sem við minnumst þeirra Jóns Ólafssonar, Ólafs E. Ólafssonar og Konnýjar Hansen sem áttu drjúgan þátt í að gera GKG að því sem klúbburinn er í dag. Í ár verður mótið haldið laugardaginn 31. ágúst.
Í ár er Ecco bakhjarl mótsins og verður þetta fjáröflunarmót fyrir þá Aron Snæ Júlíusson og Ragnar Má Garðarsson sem ætla að reyna fyrir sér í úrtökumóti Evrópuraðarinnar.
Glæsilegir vinningar verða í boði fyrir efstu þrjú sætin í karla og kvennaflokki, vörur frá Ecco og annarra fyrirtækja sem styrkja þá félaga. Við verðum með nándarverðlaun á öllum par 3 holum ásamt „Iss, ég para bara næstu“ verðlaunin. Þau verðlaun virka þannig að þeir aðilar sem eru með hærra skor en par á 15. holu og ná pari á 16. holu fara í pott og eiga möguleika á glæsilegum verðlaunum. Þá munu þeir sem lenda í fyrsta sæti í karla-, kvennaflokki og höggleik munu fá eignarbikar.
Þeir Aron Snær og Ragnar Már verða staðsettir á tveimur teigum og selja upphafshögg á kr. 1.500,-. Ef allt hollið kaupir upphafshögg má hollið velja besta boltann og allir fá að slá af þeim stað.
Svo er rúsínan í pylsuendanum, ef allir keppendur mótsins ljúka leik undir 4 klst og 30 mínútum þá verður dregin út 200 þúsund króna inneignanóta hjá VITAgolf til Spánar eða Portúgal (100 þús fyrir konu og 100 þús fyrir karl).
Hvetjum GKG-inga til að taka með sér vini og vandamenn úr öðrum klúbbum og taka þátt í þessu skemmtilega móti og um leið styrkja um leið þá Ragnar Má og Aron Snæ við að koma sér á Evróputúrinn meðal þeirra bestu. Báðir hafa leikið frábært golf í sumar og eiga fullt erindi í efsta stig atvinnumennskunnar.
Skráning er hafin á golf.is – skráning á minningamótið.
Stjórn og starfsfólk GKG