Kæru félagar,

Loftslagsmálin eru okkur hugleikin og öll viljum við lækka kolefnisporið okkar. Á síðastliðnum þremur áratugum höfum við hjá GKG plantað þúsundum trjáplanta sem hafa vaxið og dafnað í gegnum árin og skila sannarlega sínu. Hitt er svo annað að virtir vísindamenn halda því nú fram að gras, þá einkum snöggslegið geti bundið mikið magn af kolefni.

GKG styður nýja, fyrirhugaða rannsókn um bindingu kolefnis í slegnu grasi. Áhugaverðar staðreyndir:

– Gras getur bundið mikið kolefni.
– Slegið gras getur bundið meira kolefni en óslegið.
– Rætur grass stuðla að bindingu kolefnis. GKG leggur áherslu á að nota túnvingul og aðrar grasategundir með löngu rótarkerfi.
– GKG hefur gróðursett þúsundir trjáa.

GKG er virkur þátttakandi í nýju rannsóknar- og nýsköpunarverkefni með þátttöku ýmissa innlendra og erlendra aðila, innan og utan golfhreyfingarinnar. Verkefnið nefnist Kolefnis-Par og byggir á nýrri sviðsmynd sem nú birtist okkur er ýmsar nýlegar niðurstöður og fullyrðingar innlendra og erlendra vísinda- og fræðimanna eru settar í samhengi. Þar kemur m.a. fram að gras hafi langan vaxtartíma og geti bundið mikið kolefni, bæði ofan jarðar og neðan (Dr. Þorsteinn Guðmundsson og Dr. Guðni Þorvaldsson, 2018). Enn fremur, þá getur slegið gras bundið meira kolefni en óslegið (Bandanarayake 2003). Einnig sýnir ný rannsókn Pirchio o.fl. frá Pisa-haskóla að tíðari grassláttur, sem verður gerlegur með tilkomu sjálfvirkra, rafdrifinna sláttuvéla, getur hraðað bindingu kolefnis enn frekar.
Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar felur það í sér mat á kolefnisstöðu á landnýtingu allra golfvalla landsins, þar á meðal golfsvæðis GKG. Hins vegar er skoðuð innleiðing slátturóbóta með hleðslustöðvar sem ganga fyrir vind- og sólarorku. Hún er liður í að lágmarka losun frá umsjón grassvæða og hámarka þannig nettó-bindingu.

Með þessum hætti munum við vinna að því í nánustu framtíð að hámarka bindingu kolefnis í okkar starfsemi um leið og við munum halda áfram að vinna að því að minnka losun eftir fremsta megni en nú þegar höfum við fjárfest í hybrid vélum og munum fara yfir í rafslátturróbóta um leið og sú tækni verður fullþróuð með tilliti til þeirra krafna sem golfvellir gera til slátturs.

Stjórn og starfsfólk GKG

Heimildir:
Edwin Roald. 2019. Kolefnispar: Mat á kolefnisstöðu landnýtingar íslenskra golfvalla og mæling á kolefnisbindi- og uppgræðslugetu grasa á golfbrautum og slegnum karga.

Bandaranayake, W., Y. L. Qian, W. J. Parton, D. S. Ojima, and R. F. Follett. 2003. Estimation of Soil Organic Carbon Changes in Turfgrass Systems Using the CENTURY Model. Agron. J. 95:558-563. doi:10.2134/agronj2003.5580

Grossi, N., Fontanelli, M., Garramone, E., Peruzzi, A., Raffaelli, M., Pirchio, M., Martelloni, L., Frasconi, C., Caturegli, L., Gaetani, M., Magni, S., McElroy, J., & Volterrani, M. 2016. Autonomous Mower Saves Energy and Improves Quality of Tall Fescue Lawn, HortTechnology hortte, 26(6), 825-830.

Pirchio, M., Fontanelli, M., Frasconi, C., Martelloni, L., Raffaelli, M., Peruzzi, A., Caturegli, L., Gaetani, M., Magni, S., Volterrani, M., & Grossi, N. 2018. Autonomous Rotary Mower versus Ordinary Reel Mower—Effects of Cutting Height and Nitrogen Rate on Manila Grass Turf Quality, HortTechnology hortte, 28(4), 509-515.

Dr. Þorsteinn Guðmundsson & Dr. Guðni Þorvaldsson. 2018. Hugleiðingar um losun og bindingu kolefnis í votlendi. https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/hugleidingar-um-losun-og-bindingu-kolefnis-i-votlendi/18695/