Það er fráfarandi formaður mótanefndar, hinn 55 ára gamli Garðbæingur Jón Kristinn Baldursson sem hér slær góðan vortón inn í GKG sumarið framundan. Jón var formaður mótanefndar á árunum 2011 til 2019 í átta ár og sinnti því starfi með einstökum árangri. Nú er komið að því að Jón fái að njóta sín í botn með kylfurnar úti á velli og miðað við rannsóknarvinnuna sem hann hefur stundað frá sólarsvölum klúbbsins þá verður það 18. holan sem Jón mun mastera sérstaklega. Samkvæmt GolfBox er hann með ca 13 í forgjöf núna og það verður spennandi að fylgjast með henni lækka snarlega í sumar. Takk kærlega fyrir okkur Jón og njóttu golfsumarsins!
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Ég hafði haft augastað á golfinu frá barnsaldri en þá var það fjarlægur draumur. Þegar ég var kominn á unglingsaldur vann einn nágranni minn á golfvellinum. Hann bauð mér að fá lánað settið sitt og taka einn hring á vellinum. Ég þáði það, fékk smá leiðbeiningar um hvernig átti að halda á kylfunni þ.e. krækja tveimur puttum saman, og fór svo út á völl. Ég man sérstaklega eftir hvað ég varð fyrir miklu sjokki þegar ég byrjaði að reyna að hitta boltann. Endaði á því að spila bara tvær holur á óteljandi höggum og eilífðar tíma. Þetta dró mikið úr golfdraumnum hjá mér og ég hugði ekki mikið að þessu fyrr en á seinni árum eða rétt upp úr aldamótunum. Þá var það tvennt sem kom til. Annars vegar þá bauð vinnan upp á byrjendanámskeið í golfi eitt vorið, einmitt hjá GKG og hins vegar lét yngri sonurinn okkur hjón vita að hann ætlaði að stunda golf og vildi vera á golfnámskeiði um sumarið. Sonurinn var á golfvellinum allt sumarið. Sjálfur tók ég þátt í golfnámskeiði vinnunnar og spilaði nokkra hringi á vildarmiðum það sumarið. Bakterían var kviknuð og þá var bara næsta skref að semja við þáverandi framkvæmdastjóra, Hákon Sigurðsson, um aðild að klúbbnum. Hann tók okkur ákaflega vel og árið eftir vorum við fjölskyldan komin saman í þetta og gátum notið samverunnar saman á golfvellinum. Síðan hefur ekki verið aftur snúið og golfið átt hug okkar mestan.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Þegar ég gekk í GKG þá gerði ég ekki neina könnun á því hvort einhverjir klúbbar væru hentugri eða eitthvað betri. GKG varð aðallega fyrir valinu af því að hann er í göngufæri frá heimilinu.
Mýrin eða Leirdalur?
Þegar maður var búinn að ná einhverjum tökum á golfinu og farinn að spila á gulum teigum fannst manni ekki taka því að fara í golf nema fyrir 18 holur og skipti þá engu hvort það var eftir vinnu í miðri viku eða um helgar. Eftir því sem maður eldist þá tekur meira á að spila 18 holur og kemur það niður á golfinu að vera búinn með heilan vinnudag. Svo níu holur verða oftar en ekki fyrir valinu eftir vinnu og þá 18 holurnar um helgar. Báðir vellirnir eru frábærir golfvellir hvor með sínar áskoranirnar.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Ég get ekki dregið út eitthvað eitt sem það skemmtilegasta sem ég hef lent í á golfferlinum. Ánægjustundirnar hafa verið svo óteljandi margar. Hvert gott högg sem maður slær, hvert skipti sem maður samgleðst með samspilurunum þegar þeirra högg heppnast vel og allt það góða fólk sem maður hefur kynnst í tengslum við golfið hefur gefið manni svo mikið til baka. Það jafnast fátt á við það að fara út í þessa iðagrænu og fallegu náttúru, gleyma stund og stað og eiga góðar stundir með góðum félögum. Hugsa sér, að setjast svo niður eftir hring í sólinni á svölunum við klúbbhúsið, fylgjast með frábærum höggum inn á 18. holuna, gæða sér á góðgæti frá vertinum og rabba.
Starf mitt í mótanefndinni gerði það að verkum að maður hefur náð að kynnast mörgu eðalfólki og fór að þekkja mörg andlit í klúbbnum og bara það að vera í tengingu við golfið með þessum hætti hefur gefið mikið.
Þó að ekki sé hægt að taka eitt út fyrir sviga sem skemmtilegasta atvik eða slíkt þá er eitt högg sem er mér alltaf minnistætt sem getur verið vert er að nefna og man ég það sérstaklega vel þar sem ég tók mynd af legu boltast áður en ég sló. Ég er höggstuttur og hef því átt ákaflega erfitt í gegnum tíðina með að ná inn á 15. flötina á Leirdalunum í tveimur höggum. Eitt sinn slæsaði ég teighöggið og hélt að boltinn hefði farið út í vatnið hægra megin við brautina. Þegar ég kom að áætluðum stað þá sá ég hvar boltinn hékk á lyginni á brún bakkans sem vatnið var búið að sverfa úr, sjá mynd.
Í ljósi þess að ég hafði svo sem engu að tapa á þessari erfiðu holu ákvað ég að reyna að slá boltann þar sem hann lá, í stað þess að taka víti, en boltinn lá inni í vítasvæði. Ég tók 3 hybrid (Adams IDEA) og vildi freista þess að koma boltanum eins nálægt flötinni og unnt var. Tók bestu fáanlegu stöðu við boltann og slæ fullkomið högg upp að pinna (besta högg sem ég hef slegið með þessari kylfu fyrr og síðar). Fyrsti fuglinn minn á þessari holu varð staðreynd. Skil ekki enn hvernig ég fór að því að hitta boltann svona vel. Síðan hef ég “ósjálfrátt” reynt að koma mér í þessa stöðu á holunni með góðu slæsi í upphafshögginu en oftar en ekki hefur boltinn farið í vatnið eða legið í grófum karga við það.
En það vandræðalegasta ?
Við hjónin vorum einu sinni að spila á Akranesi fyrir þó nokkrum árum síðan. Það var rétt eftir góða forgjafarlækkun hjá mér og ég hélt ég væri aldeilis kominn með þetta en eins og alltaf þegar manni líður svoleiðis þá er manni duglega kippt niður á jörðina á fyrsta hring á eftir og það gerðist einmitt þarna. Það var ekkert að ganga upp hjá mér og þegar komið var á 12. brautina þá snappaði ég “pínulítið” eftir hræðilegt teighögg út í skurð og grýtti drífaranum frá mér yfir á 7. braut. Það kólnaði þó fljótt á mér þegar mér varð ljóst að ég þurfti að fara ansi langa vegalengd til að sækja kylfuna aftur því það var skurður á milli. Sem betur fer voru fáir á vellinum en ég gat ekki hugsað til þess ef einhverjir hefðu séð þessa sneipuför mína. Lærði mikið á þessu og held að ég hafi ekki kastað frá mér kylfu síðan þrátt fyrir mörg slæm högg.
Eru golfmarkmiðin þín klár fyrir sumarið og má gefa upp hvaða leynivopn verður í pokanum?
Það er ekki ofsögum sagt að ég set mér iðulega góð og gild markmið fyrir hvert sumar. Þau hafa ýmist verið tengd því að fækka höggum á hring, spila fleiri hringi eða vera alltaf jákvæður á vellinum en öll hafa þau snúið að því að reyna að njóta golfsins betur. Í ár er engin undantekning og er markmiðið að lækka forgjöfina til baka um það sem hún hækkaði núna við upptöku nýja forgjafarkerfisins og eru æfingar nú búnar að vera reglulega frá í janúar til að vinna að því markmiði. Leynivopnið hjá mér hefur iðulega verið hugarfarið, en þar sem það hefur ekki alltaf staðist væntingar þá er hugmyndin að breyta aðeins til í sumar með nýjum drífara og jafnvel nýrri flatarkylfu. Hvaða tegundir það eru vil ég ekki gefa upp opinberlega að svo stöddu. En þegar ég verð búinn að láta á þetta reyna í sumar og ef vel gengur þá má ætla að í kjölfarið verði viðkomandi styrktaraðili tilbúinn að semja við mig. Þá er ekki ólíklegt að fólk geti fengið það uppgefið hvaða tegund er um að ræða með því að hafa beint samband við mig. Og síðast en ekki síst, ef þessi leynivopn reynast eins vel og hybridin sem ég fékk mér í miðju meistaramóti í fyrra þá mun ég sennilega brjóta odd á oflæti mínu og skipta út Nike járnakylfunum mínum.
Ertu með einhverjar sérstakar væntingar varðandi vellina sjálfa inn í golfsumarið?
Vellirnir hafa verið að koma sterkir inn, sér í lagi síðasta sumar eftir markvissa vinnu vallarstjórnenda árin á undan. Ég hef miklar væntingar til að vellirnir komi vel undan vetri og verði ekki síðri í sumar en í fyrra og eins og ályktað var á síðasta aðalfundi eigum við að geta gengið að góðu sumri. Ég bara get vart beðið eftir opun valla og vænti þess að þeir verði opnaðir með fyrra fallinu í ár eins og í fyrra.
Hvaða GKG mótum stefnirðu á að taka þátt í þetta sumarið og hvert þeirra er efst á forgangslistanum?
Nú hef ég undanfarin ár ekki getað einbeitt mér nægjanlega mikið að eigin golfi í þeim mótum sem haldin hafa verið vegna starfa minna í mótanefnd en stefni að því að geta betur um frjálst höfuð strokið hvað það varðar í sumar. Meistaramótið er alltaf mót nr 1 hjá mér. Stemmingin, það að spila fleiri hringi dag eftir dag og að hvert högg telur, er eitthvað sem er svo heillandi. Annað sem er, er að þegar maður tekur þátt í meistaramóti í fyrsta skipti þá lærir maður svo mikið í golfreglunum. Það situr í manni og er einn af þáttunum sem setja þetta mót í fyrsta sæti hjá manni. Ég mæli með að allir taki sem fyrst þátt í meistaramótinu og verði óhræddir við það. Maður lærir svo mikið á því.
Fyrir utan meistaramótið stefni ég á að taka þátt í opnunarmótinu, hjóna- og paramótinu, opna sólstöðumótinu, ljósamótinu og bændaglímunni. Stemmningin í þessum mótum hefur verið hreint út sagt frábær en hvert mót á sína stemningu.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Ég verð nú að segja að ég er yfirleitt í draumaholli þegar ég spila golf, þó svo að draumaspilið mitt láti sig yfirleitt vanta. Hins vegar ef maður leggur í merkinguna draumaholl að það sé holl sem maður getur bara látið sig dreyma um af því það getur ekki orðið að veruleika af hvaða ástæðum sem er, þá myndi ég nefna fyrstann í flokki fyrrverandi framkvæmdastjórann sáluga Ólaf Einar Ólafsson, núverandi framkvæmdastjórann Agnar Jónsson og Sergio Garcia. Með þessu holli hefði þurft heilt kvikmyndatökulið til að fanga toppinn á GKG stemmningunni.
Notaðir þú golfhermana í vetur og ætlarðu að nota þá með útigolfinu í sumar?
Það að hafa aðgang að golfhermunum á veturna gerir golfið svo sannarlega að heilsárssporti. Ég fer reglulega í hermana en þó aðallega til að spila og njóta. Einstaka sinnum fer ég í hermi til að skoða golfsveifluna og lengd högganna. Þar sem sumarið verður frábært geri ég ekki ráð fyrir að nota hermana mikið inni í sumar en ég komst aðeins upp á lagið með að nota útihermana síðasta sumar til að hita upp og skoða sveifluna og geri ráð fyrir að svo verði aftur í sumar.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
18. holan er uppáhalds í Leirdalnum. Ég er eins og fram hefur komið höggstuttur og því er alltaf mikil áskorun að ná inn á flöt í tveimur. Þar sem ég dríf ekki alveg upp hallann er mikilvægt að staðsetja sig þannig að ég eigi möguleika á að koma boltanum inn á í öðru höggi eða allavega nógu nálægt þannig að ég komist í séns á pari. Að pútta á þessari flöt er frábær áskorun og eftir að vera búinn að horfa ofan af svölum á marga pútta þarna er maður orðinn ansi lúnkinn í að lesa flötina. Öfugt við marga þá dýrka ég þessa flöt.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Þriðja holan á Mýrinni er alltaf í sérstöku uppáhaldi en hún er sú par 4 hola sem ég náði að para fyrst og mér hefur reynst auðveldast að ná pari á. Stór og góð flöt sem gerir manni kleift að hitta hana oftar en margar aðrar flatir á vellinum.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Uppáhaldsvöllurinn innanlands verð ég að segja er Borgarnes en það er völlur sem hefur verið í frábæru standi þrátt fyrir lítið bolmagn í vallarstarfsemi en hann nýtur sérstakrar aðhlynningar í sjálfboðaliðastarfi sem er einstakt. En af þeim völlum sem ég hef spilað erlendis er það Tracian Cliffs í Búlgaríu með sínu stórfenglega landslagi utan í klettunum við Svarta hafið.
Texas Scramble eða Betri Bolta?
Ég vel alltaf betri bolta fram yfir Texas Scramble. Betri bolti er meira alvöru golf, þá fæ ég að spila mínum bolta og slá öll mín högg, öll högg notuð og enginn skilinn út undan.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana mest?
Uppáhaldskylfan mín í pokanum er sennilega 7 járnið í dag vegna þess að það er sú kylfa sem ég slæ jafnast með. Hana nota ég í þau högg sem henta þeirri lengd sem ég slæ með henni.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Skapmaðurinn Sergio Garcia, snillingurinn Tiger Woods og gæðablóðið Lee Westwood hafa verið mínir uppáhalds karlkylfingar erlendis. Það er ekki pláss hérna til að nefna konurnar, þær eru svo margar uppáhalds bæði innlendis og erlendis. Hér heima er Úlfar Jónsson sá kylfingur sem er í sérstöku uppáhaldi fyrir sitt algjörlega fyrirhafnarlausa frábæra golf og jafnaðargeð.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?
Þegar ég nesta mig út á golfvöll þá byrja ég á því að ákveða hvað ég ætla að taka með, tek það svo saman og sting því í töskuna. Það er mjög misjafnt hvað ég tek með mér hverju sinni en eitt er þó oftast nokkuð öruggt að skipperinn sé í einhverju hólfinu á töskunni í tilfelli að eitthvað höggið útheimti extra mikla orku.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Í mínum huga er það ekki spurning að það lang, lang besta við GKG erum við félagsfólkið ásamt frábæru starfsfólki sem skapar grunninn að þessum snilldar klúbbi okkar.