Það er við hæfi að fyrsta viðtalið okkar þegar við hefjum vetrarstarfið innahúss sé við Helga Má. Hann hefur verið lykilmaður varðandi þá uppbyggingu sem við höfum verið í undanfarin ár. Helgi Már er arkitekt, teiknaði Íþróttamiðstöðina okkar sem og þá viðbyggingu sem við tökum í gagnið í nóvember. Helgi Már er jafnframt golfari af lífi og sál auk þess sem hann sinnir sjálboðaliðastarfi á borð við dómgæslu, skipulgasmálum og er fyrstur til að melda sig þegar við köllum eftir aðstoð.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Það var þegar við bjuggum í Árbænum upp úr 1990, rétt við Grafarholtsvöllinn, að við sendum Andra Má son okkar á golfnámskeið þar og ég fylgdi honum til aðstoðar af því að kennarinn talaði mest ensku. Aðstoðina þurfti hann að sjálfsögðu ekki en þarna smitaðist ég og þarf ekki rakningarteymi til að finna það.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Það lá bara beint við því við vorum flutt í Ásbúðina í Garðabæ þar sem við búum enn, þegar kom að því að ganga í klúbb. Stutt í GKG það var bara sjálfgefið. Síðan hefur aldrei svo mikið sem flögrað að mér að flytja mig um set og ganga í annan klúbb.
Mýrin eða Leirdalur?
Ólíkir vellir og báðir hafa sitt. Leirdalurinn er þó framar í mínu vali.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2020?
Vellir GKG hafa að mínu mati aldrei verið betri. Framkvæmdir sem hefur verið farið í á undanförnum árum ss. drenun brauta og snyrting við teiga hafa skilað sér í upplifun og ásýnd. Flatir voru líka betri og þar er markviss vinna okkar frábæru vallarstarfsmanna að skila sér.
Hvað stendur upp úr hjá þér eftir sumarið?
“Fordæmalaust” verður áræðanlega valið orð þessa árs sem mun verða minnst fyrir Covid19-faraldurinn. Fordæmalaust getur líka verið lýsing golfárins míns því minna golf hef ég ekki spilað í mörg ár. Fyrir rúmu ári var greint slit í mjaðmaliðunum mínum, sérstaklega þeim vinstri. Læknirinn sendi mig heim með bólgueyðandi og verkjalyf og sagði mér að taka þetta þegar ég færi í golf. Þetta gæti hins vegar versnað snögglega og ég skyldi hafa samband aftur þegar ég væri kominn á hækjur! Í lok maí gerðist einmitt það, mér fór að versna mikið, farinn að ganga draghaltur og í júní var lítið um golf vegna þess – og líka þess að konan mín, Regína Rögnvaldsdóttir sem er minn tíðasti spilafélagi, þurfti að fara í aðgerð á fæti en þeirri aðgerð sem hafði jú verið skipulögð utan golfsumars, hafði ítrekað verið frestað vegna Covid19. Í júní var því lítið sem ekkert um golf hjá okkur báðum.
Í júlí var ég orðinn það illa haldinn að ég gat illa stundað mína vinnu vegna verkja, gat hvorki setið við vinnuborðið eða staðið. Eins og undanfarin ár sinnti ég þó dómarastörfum alla daga meistaramótsvikunnar því það gat ég gert haltrandi og keyrandi um á golfbíl þó ég gæti ekki spilað golf af neinu viti.
Frá fleiri en einum lækni kom sama niðurstaða, ekkert nema nýr mjaðmarliður myndi verða bót á mínum meinum. Þá var tekið ákvörðun út frá stöðunni og í sem stystu máli, ég fór í liðskiptaaðgerð þann 4. ágúst. Í síðustu vikunni fyrir aðgerðina spiluðum við hjónin á hverjum degi því ég komst upp á lag með að spila með golfbíl og sterkum verkjalyfjum! Í áttundu vikunni eftir aðgerðina, eða 24. september, spilaði ég svo minn fyrsta golfhring með nýjan mjaðmarlið. Þann hring og eina tvo til viðbótar eftir það, spilaði ég með bíl því óhaltur er ég ekki alveg ennþá. Hafði reyndar pantað rástíma og ætlaði að spila níu holur fótgangandi síðdegis föstudaginn 9. október en þá kom Covid inn í myndina, enn og aftur. Öllum völlum höfuðborgarsvæðisins var lokað um hádegi þennan dag og ekkert varð af golfhringnum mínum.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Styrkur GKG felst meðal annars í breiddinni og þá á ég við að klúbbfélagar koma úr öllum aldurshópum. Barna-, unglinga- og afrekststarfið er gríðarlega öflugt og mikilvægt og gott uppeldi skilar bæði afrekum og háttvísum kylfingum. Þetta nefni ég sérstaklega því í dómarastarfinu sér maður misjafna hluti, alla jafna mikla og góða háttvísi en lika hitt. Börnin og unglingarnir eru þó yfirleitt alltaf til fyrirmyndar, það er frekar hjá þeim fullorðnu sem maður mætir stundum skrýtnu viðmóti. Ég ætla því að láta þessi atriði ráða hollinu mínu sem ég ætla líka fyrirfram að ákveða að hafi jafnt kynjahlutfall.
Fyrst ætla ég að velja þann kyfling sem hlaut síðast háttvísiviðurkenningu GKG á aðalfundinum 2019 en það var Anna Júlía Ólafsdóttir en hún varð einmitt líka klúbbmeistari GKG það árið. Næst vel ég annan ungan kvenkylfing, Huldu Klöru Gestsdóttur sem varð Íslandsmeistari 15-16 ára unglinga árið 2018, klúbbmeistari GKG í ár og hefur nú þegar skipað sér í hóp bestu kylfinga landsins.
Fjórði maðurinn í hollið verður þá utanfélagsmaðurinn og hann verður karl til að uppfylla markmiðið um jafnt kynjahlutfall. Hafandi valið tvo unga kylfinga, ætla ég að velja kylfing af eldri kynslóðinni, enga erlenda goðsögn, þó vissulega það væri freistandi. Ég ætla að velja mann sem hefur líklega keppt á fleiri Íslandsmótum en nokkur annar og orðið Íslandsmeistari sex sinnum. Hann er að norðan eins og ég og heitir Björgvin Þorsteinsson.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Það hlýtur að vera þegar ég varð klúbbmeistari GKG í 4. flokki tvö ár í röð fyrir mörgum árum síðan. Seinna árið lenti ég í bráðabana og hafði betur á þriðju holunni í bráðabananum sem var sú 18. á vellinum og úrslitin réðust því undir lófaklappi áhorfenda við gamla skálann.
En það vandræðalegasta?
Ætli það sé ekki aðstæður sem við hjón lentum í ásamt frænda mínum og hans konu á einum þriggja golfvalla Belfry-svæðisins í Englandi. Á undan okkur var holl enskra klúbbmeðlima Belfry sem voru svona frekar hægspilandi. Á einni brautinni sló frændi blindandi högg upp úr glompu og yfir hól sem var milli hennar og flatarinnar. Hann hitti boltann líklega betur en hann reiknaði með og boltaflugið var ágætt. Við hlupum til hliðar við hólinn til að sjá hvort boltinn hefði farið of nálægt hollinu á undan. Við sáum boltann sem hafði ekki náð flötinni en við sáum líka að hollið var enn á flötinni og að ljúka leik. Allt í einu tekur einn úr hollinu undir sig stökk og hleypur í átt að boltanum okkar, tekur hann upp og grýtir honum út í skóg til hliðar við brautina. Háttarlagið þótti okkur vera dramatískt og undarlegt. Við mældum fjarlægð frá þeim stað þar sem boltinn lá og að flaggi og það voru sléttir 50 metrar sem okkur fannst nú vera alveg þolanleg vikmörk, þó auðvitað mætti segja að frændi hefði átt að bíða aðeins lengur með að slá úr glompunni. Þegar við nálguðumst næsta teig á eftir sjáum við “Marshallinn” koma á æðandi ferð að okkur og hann segist hafa fengið kvörtun vegna okkar frá hollinu á undan. Við lýstum því sem gerst hafði frá okkar hlið og sögðum frá mælingunni okkar, 50 m. Undrunarsvipur kom á Marshall og hann bað okkur afsökunar fyirir hönd Belfry. Gestir á golfvellinum væru velkomnir og framkoma við þá eins og hollið á undan hefði sýnt okkur endurspeglaði ekki hvernig Belfry vildi taka á móti gestum.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?
Þátttaka mín í mótum hefur minnkað nokkuð eftir að ég varð dómari hjá GKG. Meistarmótið er nú alltaf í uppáhaldi og því var það auðvitað súrt að geta ekki verið með í ár af ástæðum sem ég hef þegar rakið. Ég náði þó að vera með í Bændaglímunni í ár og hún er alltaf skemmtileg.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Holukeppni sem er upprunalega keppnisform golfsins er alltaf skemmtileg. Betri bolti er líka skemmtilegt form. Ég er lítið fyrir Texas scramble.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Ég vel tólftu brautina. Fyrir kylfing með mína getu, skila tvö góð högg boltanum niður undir flötina þannig að innáhöggið er þægilegt og fuglafæri. Ef annað eða bæði fyrstu höggin misfarast er innáhöggið hins vegar snúið. Svo er líka annað með þessa braut að á henni er að mínu mati einna mestur munur á aftasta teig og öllum hinum. Flestir hafa líklega aldrei gengið upp í skógarþykknið þar sem aftasti teigur, lítill sem hann er, kúrir milli trjánna. Morgunverk fyrsta dómara á vakt í móti er að fara yfir völlinn, teiga, glompur, flatir og fl. og sjá til að allt sé eins og það á að vera. Í meistarmótsvikunni eru þessir teigar í notkun síðari hluta vikunnar og þegar ég hef tekið morgunvaktina hef ég farið upp á teiginn í úttekt og stundum staldrað við og horft yfir brautina í morgunbirtunni. Af þessum teig er brautin allt önnur ásýndar en af teigunum fyrir neðan.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Ég vel þriðju brautina sem hefur batnað með drenaðgerðum undanfarin ár. Kargi, glompur, vítasvæði og fl. eru innan seilingar ef upphafshöggið er ekki nógu gott og gera þá innáhöggið erfiðara. Og jafnvel með góðu upphafshöggi og nokkuð þægilegu innáhöggi eru hættur við flötina og of langt högg upp í mönina á bakvið flötina þýðir amk. eitt tapað högg. Þetta er hola sem getur verið þæg og góð en líka leiðinleg fyrir höggstutta eins og mig.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Arnarholtsvöll í fæðingarsveitinni minni Svarfaðardal, er alltaf jafn gaman að heimsækja. Það reyni ég að gera á hverju ári en í sumar fór það í vaskinn eins og svo margt annað.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?
Já, ég nota golfhermana með mikilli ánægju. Ég spilaði í fyrsta sinn í golfhermi í Kaupmannahöfn í október 2015 þegar bygging íþróttamiðstöðvarinnar okkar var í fullum gangi og húsið uppsteypt að mestu. Ákveðið hafði verið að setja upp golfherma á neðri hæðinni og við Agnar framkvæmdastjóri ákváðum að hittast í Kaupmannahöfn í tengslum við að ég var staddur þar vegna vinnu minnar. Við heimsóttum golhermamiðstöð sem við kynntum okkur vel – og spiluðum að mig minnir yfir tuttugu holur. Fórum síðan heim og lögðumst yfir hönnun á golfhermasalnum sem við þekkjum í dag. Ég man að upplifunin í Kaupmannahöfn forðum var þessi: Að spila í golfhermi er miklu meira GOLF en ég átti von á. Það gildir enn í dag.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Uppáhaldskylfan er sú sem ég á gott högg með hverju sinni.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Nei, en ég hef mikla ánægju af og það er mikil hvatning að spila með mér miklu betri golfurum sem verða þannig fyrirmyndir sjálfkrafa.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?
Ætli það fari ekki mest eftir hvenær dagsins lagt er í hann. Vatnsflaskan er fastur passi og oft samloka og súkkulaðistykki. Ég er vanafastur og tíunda á Leirdalnum er mín “samlokubraut”!
Nú styttist í opnun íþróttamiðstöðvarinnar eftir mikla endurhönnun sem þú hefur verið potturinn og pannan í. Af hverju ertu stoltastur í þeirri vinnu og hverjar verða helstu breytingarnar?
Ég segi nokkurn veginn pass við þessari spurningu því henni vil eða get ég ekki svarað fyrr en eftir einhvern tíma, jafnvel nokkur ár. Mér finnst skipta máli hvort það sem maður sér fyrir sér gangi eftir í notkun hússins. Ég reyni að búa það til sem menn sjá fyrir sér og ganga líka lengra og búa til eitthvað sem menn sjá ekki fyrir sér, eitthvað sem getur opnað á nýja möguleika og hugmyndir í starfseminni. Hvort það tekst er minn mælikvarði. Eftir þau rúmu fjögur ár frá því íþróttamiðstöðin var tekin í notkun hefur skapast ákveðið munstur í notkun hússins og starfsemi, sumt sá ég fyrir, annað sá enginn fyrir, hvorki ég né aðrir. Ýmsar breytingar og viðbætur hafa verið gerðar á húsinu að undanförnu og meðal annars hefur norðurhluti neðri hæðarinnar verið endurskipulagður í tengslum við stækkun hússins. Reynsla hefur verið dregin af fyrirkomulagi við golfhermana og brátt fá félagar og aðrir gestir að sjá nýja útfærslu sem byggir á henni í nýja húshlutanum og áætlað er að sú uppfærsla verði einnig færð inn í núverandi hermasal.
En til að segja ekki alveg pass við spurningunni, get ég nefnt að ég er ánægður með hvernig hefur tekist til að fella stækkun hússins inn í landið. Nýi hluti neðri hæðarinnar er stærri að flatarmáli en sá eldri og það er síður en svo augljóst utan frá. Mér sýnist líka að nýja útipúttflötin og tenging hennar við bæði efra og neðra svæðið við húsið verði fín og muni virka eins og hugsað var.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Upp í hugann kemur orðatiltæki sem einn góður félagi í GKG notar oft á FB þegar hann lýsir hvernig var hjá honum í golfhringnum eða í hjóla- eða hlaupatúrnum. Klúbburinn er bara svo “ansi notalegur” !