Kylfingur dagsins er öflugur formaður kvennanefndar GKG, Ásta Kristín Valgarðsdóttir. Hún er Garðbæingur út í gegn og á besta aldri, eða 51 árs. Kvennanefndarformaðurinn spilaði mikið í sumar og var í miklum upp- og niðurleik með forgjöfina sína. Hún var hins vegar ekkert að flækja hlutina þegar kom að holukeppninni og krækti sér í titilinn Holumeistarari GKG 2020. Þá tók hún annað sætið í sínum flokki í Meistaramótinu og vann mikinn persónulegan sigur á 16. brautinni. Eins og það sé ekki nóg þá lokaði þessi snillingur sumrinu með því að skella í eina holu í höggi í Bændaglímunni. Vel gert Ásta Kristín og innilega til hamingju með glæsilega golfsumarið þitt! En gefum meistaranum sjálfum orðið.
Ég spilaði mikið golf í sumar enda ekkert farið til Spánar þetta árið. Ég ætlaði að fara undir 25 í forgjöf en það tókst ekki þrátt fyrir að ég spilaði yfir 70 hringi. Ég byrjaði í 26,6 í vor og var alveg í ruglinu og hækkaði upp í 29,5 en þá fór allt að ganga upp og ég náði að lækka mig niður í 25,5. Ég hef farið lægst í 25,4 en það var fyrir slysið sem ég varð fyrir á 16 brautinni árið 2014. Síðan þá hefur forgjöfin mín hækkað jafnt og þétt en ég gafst ekki upp og núna 6 árum seinna vann ég loksins 16 brautina og fékk ég nokkrar boggur þar í sumar. Ég er mjög ánægð með þessar boggur enda hef ég yfirleitt ekki fengið punkt á þeirri braut eftir slysið. Langar samt að segja í sambandi við aldur þá skiptir hann ekki máli í golfi því þar spila allir saman, ungir sem gamlir og það gerir þessa íþrótt svona skemmtilega.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Maðurinn minn var búinn að spila golf í mörg ár og reyndi að fá mig með, en á þeim tíma vorum við með ung börn svo ég taldi það ekki vera rétta tímann fyrir golf. Það má kannski segja að ég hafi alls ekki kunnað vel við þessa íþrótt. Sérstaklega ekki þegar ég var komin að fæðingu og minn sagðist ætla að skella sér í golf. Ég vissi hvað það þýddi, það tók 5 tíma og ekki mátti hringja í hann, það var alveg bannað þá. Ég tók þátt í einhverjum fyrirtækjamótum hjá honum en þegar börnin urðu eldri var ég tilbúin að byrja. Það var árið 2009 sem ég byrjaði eitthvað að ráði, búin með háskólann og yngsta barnið orðið 4 ára og eldri börnin komin með aldur til að passa. Það má segja að ég hafi kolfallið fyrir sportinu og lækkaði forgjöfina strax um 7 heila fyrsta árið. Þetta hefur reyndar alveg snúist við núna síðustu ár, nú dreg ég manninn með í golf og fara yngsta dóttir okkar og sonur stundum með okkur.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Það var ekki erfitt val, því það var bara GKG sem kom til greina á þeim tíma, skoðaði ekkert annað enda maðurinn búinn að vera þar í mörg ár. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa valið GKG og ekki dottið til hugar að fara að færa mig í annan klúbb. GKG er einfaldlega besti klúbburinn.
Mýrin eða Leirdalur?
Fyrstu árin var það Mýrin, aðalega vegna tímaleysis, en fyrsta skiptið í sumar spilaði ég fleiri hringi á Leirdalnum. Ég kann vel við báða velli en það er kannski bara tíminn sem ræður því hvorn völlinn ég spila hverju sinni.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2020?
Já algjörlega, þeir voru geggjaðir og því er Gumma vallarstjóra og hans fólki að þakka. Það er búið að gera mikið fyrir Leirdalinn og er enn verið að, sem er frábært en við megum samt ekki hætta að hugsa um Mýrina þrátt fyrir að það stefni í breytingar á henni.
Hvað stendur upp úr hjá þér eftir sumarið?
Úffff þetta var golfsumarið mitt þrátt fyrir að ég lækkaði ekki forgjöfina mína eins og ég var búin að gera mér vonir um. Fyrst var það annað sætið í meistaramótinu þar sem 11 brautin lék mig grátt alla dagana. Þá var það holukeppnin þar sem ég varð holumeistari kvenna og að lokum holumeistari klúbbsins eftir skemmtilega og spennandi leiki við frábæra mótherja. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir drengilega keppni og hlakka ég til næsta sumars og vil hvetja alla til að taka þátt í þessari skemmtilegu keppni þar sem allir eiga möguleika á að verða holumeistar. Ef ég gat þetta þá getið þið það líka. Nú til að toppa þetta allt þá fór ég holu í höggi í Bændaglímunni á 11 holunni. Sérstaklega skemmtilegt þar sem sú hola var búin að stríða mér mikið í sumar.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Þetta er erfið spurning því það er erfitt að velja bara tvo úr þessum frábæra hópi sem félagsmenn GKG eru. Ég spila með öllum en finnst skemmtilegast að spila með að lágmarki einum öðrum spilara sem er að spila af sama teig og ég. Það er vegna þess að þegar ég byrjaði í golfi spilaði ég oft með þremur körlum og fannst þeir sumir ekki nenna að bíða eftir að ég væri búin að slá minn bolta og gengu bara áfram. Ég man hvað þetta truflaði mig mikið en sem betur fer eru þeir flestir frábærir og góðir meðspilarar. Skemmtilegast finnst mér að spila með mínum manni og öðru pari en einnig finnst mér mjög gaman að spila í kvennaholli, alveg sama hvort það eru byrjendur eða lengra komnar konur. Ef ég á að tiltaka eitthvað draumaholl, þá væri það eiginmaðurinn og Hulda Clara, klúbbmeistari kvenna því ég man enn eftir því fyrir mörgum árum þegar við hjónin spiluðum hring, eða nokkrar holur á Mýrinni með Huldu Clöru þegar hún var að byrja í golfi. Dásamleg þessi stelpa sem endaði ein í hollinu eftir þriðju braut því við fengum símtal og urðum að bruna með drenginn okkar upp á spítala. Gesturinn okkar væri klárlega Tigerinn, já eða Andri frændi sem hjálpaði mér í sumar svo ég náði aftur tökum á golfinu.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Ég held að það toppi ekkert að fara holu í höggi, hvílík geðshræring. Það var eins og ég hef sagt á 11. holu og enn skemmtilegra að gera þetta í Bændaglímunni með frábæru fólki. Takk Gísli, Berglind og Þór fyrir að fagna með mér og við gerum það enn betur þegar aðstæður leyfa.
En það vandræðalegasta?
Veit ekki hvort það er vandræðalegast en allavega það versta sem ég hef lent í. Það var þegar ég var að spila Leirdalinn með góðum vinum 7. júní árið 2014 að ég varð fyrir golfbolta á 16. brautinni. Góð vinkona mín var svo óheppin að slá boltann sinn í grjót í holtinu sem endaði í andlitinu á mér. Ég hef oft litið betur út og maðurinn minn fór bara eina ferð með mér í Bónus eftir þetta hahaha. Þess vegna vil ég láta “friða holtið” eða hreinlega setja þar bara fallega tjörn svo fólk sé ekki að slá boltana sína þarna. Já heyrðu ég man líka eftir einu vandræðalegu. Það var á mínu fyrsta meistaramóti, árið 2013, að ég tók aðeins of mörg högg á fyrstu brautinni. Ég bara hreinlega lokaðist og sá enga lausn inni í skóginum svo ég sló bara aftur og aftur helv…. boltann og endaði á, að mig minnir, 13 höggum á þeirri braut. Allir að muna að við getum alltaf endurtekið síðasta högg í stað þess að reyna að slá boltann þegar hann er alveg ósláanlegur. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir þetta að ég mætti ekki aftur í meistaramót fyrr en núna í sumar og sé enn eftir því, þar sem það er svo gaman að taka þátt í meistaramóti.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?
Uhhh hverslags spurning er þetta, ég reyni að taka þátt í öllu sem ég hef tök á, hef alltaf tekið mikið þátt í kvennastarfinu og þeim mótum sem þar hafa verið í boði. Hjóna- og paramótinu, bændaglímunni, ljósamótinu og nú í ár tók ég í fyrsta skipti þátt í liðakeppninni og holukeppninni. Ég held að ég hafi tekið þátt í öllum mótum nema mánudagsmótaröðinni, hehe tek hana kannski á næsta ári. Ég veit ekki hvort ég eigi mér uppáhaldsmót en meistaramótið og holukeppnin eru skemmtileg eins og hin svo sem líka. Ég held að hjá mér skiptir bara máli félagskapurinn, að það sé eitthvað gaman eftir mótin og að sjálfsögðu í mótunum sjálfum.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Tja veit ekki, ég held að það sé ekki endilega leikformið sjálft heldur hver leikur fyrir sig. Ég vil fara á völlinn til að hafa gaman með góðu fólki, ekkert stress eða of stífar reglur, við tökum það í mótum. Ég hef stundum lent í því að spila með fólki sem stuðar mig og þá er bara ekkert gaman í golfi. Þegar ég spila með byrjendum þá mega þeir taka víti, já svona nokkurveginn þar sem þeir vilja, en ég bendi þeim á að ef þeir eru í móti þá yrðu þeir að taka vítið svona og svo segi ég þeim hvernig og hvar.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
- holan hefur lengi verið mín uppáhalds þar sem minn fyrsti fugl kom þar en ég skoða umhverfið oft og þá er leiðin á milli 1. og 2. brautar fallegasta leiðin á vellinum og mundi ég vilja sjá fleiri þannig fallegar leiðir á milli brauta.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
- holan held ég, getur verið svo gaman að ná inn á í öðru höggi sem ég næ mjög oft en á móti getur hún refsað manni mikið. Nú svo er áskorunin að ná yfir veginn í upphafshögginu og hef ég nokkru sinnum verið í röffinu við veginn. 5. brautin er líka í uppáhaldi þar sem það er brautin sem ég fékk mitt fyrsta par og svo eru 6. og 7. skemmtilegar þar sem þar eru áskoranir til að takast á við, eins og reyndar á flestum brautum á Mýrinni.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Þeir eru svo margir, Húsavík, Sigló, Akranes, Borgarnes, Urriðaholt, Grafarholtið og Hvaleyrin. Í sumar spilaði ég líka á Höfn og kom hann skemmtilega á óvart. Ég vil ekki gleyma að nefna minn uppáhaldsvöll á Spáni sem er Las Colinas. Við höfum spilað mikið á Spáni undanfarin ár þar sem foreldrar mínir búa þar en því miður vegna einhvers þá höfum við ekki farið þangað á þessu ári en krossa fingur um að við komumst þangað sem fyrst á nýju ári.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?
Ég hef farið í hermana með fjölskyldunni og við tekið spil og svo eftir að Leirdalurinn kom inn þá hef ég stillt boltanum upp fyrir aftan holtið á 16. og fundið út hvaða kylfa er best yfir holtið. Það var frábært að fara á námskeið hjá Ástrós síðasta vetur og vera búin að fá smá kennslu á hermana hjá Úlfari, sem kom á fund kvennanefndarinnar í byrjun árs og kenndi okkur á hermana. Aðstaðan hjá okkur í GKG er að verða enn betri og sú besta sem þekkist og vorum við í kvennanefndinni búnar að setja upp kvennamót í hermunum í vetur og vonast ég til þess að við getum farið að byrja með þau fljótlega á nýju ári.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Ætli það sé ekki hybridinn minn. Ég nota hann mikið, bæði í upphafshöggum og á braut. Það er líka gaman að eiga góð högg á braut með þristinum því ég næ honum oft í 150 metrana þegar boltinn liggur vel.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Ég hef alltaf verið “Tiger fan” og það breytist ekki þó svo ég fylgist vel með öðrum kylfingum eins og Rory Mcllroy, Rickie Fowler, Önnu Nordqvist, Lexi Thompson og okkar frábæra fólki hér heima, Andra Þór, Axel, Ragnari Má, Huldu Clöru, Guðrúnu Brá, Ólafíu Þórunni og Valdísi Þóru. Að sjálfsögðu fylgist ég líka með öllu flotta GKG fólkinu okkar sem hefur verið að gera góða hluti. Það var mjög gaman að starfa í meistaramótinu í sumar þar sem ég fékk m.a. að taka á móti krökkunum þegar þau komu inn eftir hringinn. Þetta eru snillingar sem eiga bjarta framtíð fyrir sér og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Nokkur af þeim hafa verið í leikskóla hjá mér og finnst mér einstaklega gaman að fylgjast með þeim, maður á alltaf eitthvað aðeins í þessum snillingum.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?
Gott að hafa vatn, banana og hnetur en svo versla ég líka oft hvítan Powerade og langloku hjá besta fólkinu í Mulligan, já og svo er alltaf gott að fá sér eitt Snickers með. Annars er ég lítið fyrir að borða á hringnum en fæ mér yfirleitt eitthvað á 10undu og svo er alveg must að koma inn í skála eftir hringinn og fá sér eitthvað gott eins og kjúklingavængi og einn kaldan með.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Það sem er best við GKG er félagsskapurinn og GKG andinn. Ég hef alltaf tekið þátt í því sem hefur verið í boði í klúbbnum og hef verið í kvennanefndinni í tvö ár og þar af eitt ár sem formaður nefndarinnar og sem varaformaður klúbbsins. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir frábært samstarf og öll hlýju orðin í minn garð og kvennanefndarinnar. Það gefur okkur mikið og hvetur okkur enn frekar áfram á þessum erfiðu tímum til að gera enn betur. Hjartað mitt hefur alltaf slegið hjá GKG eins og það gerir með Stjörnunni, sannur Garðbæingur.