Golfið hefur aldrei verið langt undan hjá Ástrós, enda dóttir Arnars Más golfkennara. Hún fetar í sömu fótspor og mun útskrifast í vor sem fullgildur PGA kennari. Fyrir tveimur árum var hún ráðin til starfa á skrifstofuna til aðstoðar við þau fjölmörgu mál sem þar er sinnt, en frá því í haust hefur aðaláherslan í hennar starfi verið að þjálfa börn og unglinga, og er hún hluti af öflugu þjálfarateymi GKG, þó hún sinni áfram ákveðnum málum á skrifstofunni. Ástrós er 27 ára, býr í Reykjavík og er með 3,7 í forgjöf.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Sennilega var ég byrjuð í golfi frá upphafi. Pabbi er golfkennari og ég byrjaði því mjög ung að sveifla kylfum. Raunverulegur áhugi á því að æfa og verða betri kviknaði þó sennilega þegar ég var 11 ára.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Það er ágætlega löng saga, en í stuttu máli þá hætti ég í golfi þegar ég var 19 ára en viljinn auðvitað alltaf til staðar til að spila og æfa. Þegar ég var svo að skrifa lokaverkefnið mitt í  sálfræðinni í HÍ vann ég það í íþróttasálfræði og fékk þá vel þegna aðstoð hjá Úlfari við mælingar fyrir rannsóknina. Þarna var ég orðin 25 ára og að einhverju leyti búin að missa vonina um að byrja að æfa aftur. En mér bauðst sem sagt að byrja að æfa með meistaraflokki hérna í GKG og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Það sem hélt mér svo á æfingunum voru viðtökurnar hjá stelpunum, þær tóku virkilega vel á móti mér enda algjörir meistarar!

Mýrin eða Leirdalur?

Leirdalur

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?

Mjög margt. Ég fékk að vera beggja megin borðsins hvað varðar mótahald. Ég spilaði sjálf á stigamótaröðinni og sá svo um mörg mót í GKG. Ég held að Meistaramótsvikan standi uppúr. Allir sterkustu kylfingarnir okkar með, vinna frá morgni til kvölds í mótsstjórninni og fagna svo að leikslokum. Það var skemmtileg vika.

Hvert er planið og leynivopnið  fyrir golfsumarið framundan?

Planið er alltaf að keppa og reyna að spila sem mest. Leynivopnið verður sennilega hugleiðsla. Það verður mikilvægt að halda andlegu hliðinni í jafnvægi til þess að ná að sinna öllum þáttum sumarsins sem best. Þjálfa krakkana og vera þeim innan handar og æfa svo sjálf og keppa.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Ég er búin að sitja alltof lengi yfir þessari spurningu! Ég get ekki valið hvaða holl er draumaholl, þau eru mörg hollin sem væru fáránlega skemmtileg. Kannski verð ég komin með svarið ef ég verð einhvern tímann á lífsleiðinni aftur GKG-ingur vikunnar!

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Það er margt sem stendur upp úr en það er ekki hægt að líta fram hjá því að vinna Íslandsmeistaratitilinn með GKG 2019 í Íslandsmóti golfklúbba. Þvílík gleði!

En það vandræðalegasta?

Ég var að spila á Hvaleyrinni 2019 í Hvaleyrarbikarnum og var búin að eiga bara nokkuð góðan hring. Allavega ekkert eftirminnilegt til að kvarta yfir þannig. En svo kom þessi blessaða 18 hola. Ég lenti í bönkernum fyrir framan grín, allt í góðu með það. Ég sló boltann uppúr og hélt það væri ágætis högg, en hann hafði farið yfir grínið og í hraunið sem er fyrir aftan grínið. Þaðan vippaði ég inná flötina, en boltinn bara rúllaði og  rúllaði og hætti ekki… fyrr en hann var kominn aftur í bönkerinn. Þetta ætlaði ég ekki að gera aftur! En í staðinn tók ég örugglega 3 högg í bönkernum áður en ég kom honum inn á grín og mig minnir að lokatalan hafi verið 9 á þessari holu. Verst var að finna hvað áhorfendum fannst þetta óþægilegt!

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Ég hef ekki haft tímann til að taka þátt í þeim mótum, fyrir utan Meistaramótið og ég held að fyrir mitt leyti hljóti það að vera lang skemmtilegasta mótið!

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Það er fyrirkomulagið í Íslandsmóti golfklúbba. Ég hef gaman af því að brjóta upp einstaklingsmiðaða formið í golfinu með því að vera hluti af liðsheild, peppa, fá pepp og mæta öðrum liðum. Svo er líka svo gaman að fylgjast með þessu fyrirkomulagi fyrir leikmenn og áhorfendur.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Ég held að það sé 11. holan. Fallegt útsýni af teig, sjá jökulinn í bakgrunninum, gaman að ráðast á erfiðar holustaðsetningar.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Sennilega 7. holan. Hún er krefjandi, sérstaklega af aftari teigum.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Það er Wannsee í Berlín. Það er gamli klúbburinn mitt, einn sá elsti í Þýskalandi, og völlurinn er einfaldlega frábær!

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Ég nota golfhermana mjög mikið, bæði í æfingar og í þjálfun. Mér finnst þeir frábærir. Þeir bjóða upp á svo fjölþætta þjálfun, þannig að bæði byrjendur og yngstu iðkendurnir geta haft gaman að þeim og afrekskylfingar geta fínpússað tæknina sína.

Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Þetta er góð spurning, ég hef ekki beinlínis hugsað út í það. Það eru þrjár sem koma upp í hugann, það eru 58° mínar sem eru frábærar í kringum grínið, svo nýji pútterinn minn sem er Scotty Cameron, Special Select Newport. Svo get ég ekki sleppt Drivernum, þó svo að hann sé orðinn alltof gamall og sennilega ekki að gefa mér allt sem ég get fengið út úr „drævunum“, en hann er samt búinn að vera vinur minn í mörg ár, þó hann vilji stundum líka vera erkióvinur minn.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Ég leit alltaf mikið upp til Anniku Sörenstam og Tiger Woods þegar ég var yngri. Svo var stelpa sem var bara nokkrum árum eldri en ég að æfa í Berlín sem var svo hrikalega góð í golfi, mikill agi, alltaf almennileg við alla og góð keppnismanneskja. Ég leit mikið upp til þessara kylfinga og geri sennilega enn.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?

Ég hef komist að því í gegnum tíðina að ég verð að hafa marga litla hluti með mér. Það er að staðaldri skyrdrykkur, hnetublanda, smoothie, hnetustykki og egg.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Allt góða fólkið og nýja inniaðstaðan okkar!