Að sögn Birgis Leifs hefur fjöldi kylfinga af Evrópumótaröðinni sem taka þátt í Áskorendamótaröðinni stóraukist á milli ára. Af þessum sökum er enn meiri barátta um laus sæti á Áskorendamótaröðinni og mun erfiðara fyrir kylfinga í lægri styrkleikaflokkum að fá þátttökurétt.

Við lauslega samantekt kemur í ljós að með sömu styrkleikaflokkun og Birgir Leifur er nú með á Áskorendamótaröðinni hefði hann verið gjaldgengur á öll mót mótaraðarinnar í fyrra að undanskildum 2 stærstu mótunum. Nú er hann hinsvegar að lenda í því að komast ekki inn á annað mótið í röð og eru það mikil vonbrigði.

"Þetta eru mikil vonbrigði og ekki gaman að þurfa að sitja heima annað mótið í röð. Ég kem til með að endurmeta stöðuna dag frá degi og skoða framhaldið. Það er hinsvegar ljóst að mun meiri barátta er um laus sæti á Áskorendamótaröðinni þar sem mikið af Evróputúrs spilurum eru að taka þátt í Challenge á þessu ári. Ég mun þó eins og ég sagði meta stöðuna reglulega og sjá til hvert framhaldið verður" sagði Birgir Leifur í samtali við GKG.is.

Ian Woosnam sem leiðir lið Evrópu í Ryderkeppninni á þessu ári hefur gefið út þá yfirlýsingu að þeir kylfingar sem sækjast eftir því að koma til greina í Evrópuúrvalið þurfi að leika meira í Evrópu. Þetta hefur haft áhrif á fjölgun sterkari þátttakenda á Evrópumótaröðinni sem síðan skilar sér í því að færri komast inn þar úr neðri styrkleikaflokkum og reiða sig á Áskorendamótaröðina í staðinn.