Birgir Leifur endaði í 5. – 6. sæti á Ecco Tour Championship mótinu sem lauk í dag eftir að hafa leikið ákaflega gott golf í dag með 15 pör og 3 fugla. Mótið er liður í Áskorendamótaröð Evrópu og er þessi árangur Birgis Leifs honum ákaflega þýðingarmikill till þess að fikra sig upp styrkleikatöfluna. Með því móti hefur hann möguleika á að komast hjá fyrstu stigum úrtökumótanna í haust fyrir Evrópumótaröðina.

Birgir Leifur lék stöðugt og gott golf alla keppnisdagana 66+66+67+67= 266 höggum eða á -14 höggum undir pari. Hann fékk samtals 19 fugla, 48 pör og 5 skolla á hringjunum 4 og endaði eins og áður sagði í 5.-6. sæti, einungis 5 höggum frá efsta manni og hlýtur að launum u.þ.b. 1/2 milljón ISK.