Birgir lék á pari í dag, 72 höggum, og er samtals á 3 höggum undir pari í 11. sæti fyrir þriðja keppnisdaginn. „Höggin hjá mér úti á vellinum voru öll eins og best verður á kosið. Það var því dapurt að ná ekki að nýta sér það. Ég fékk þrjá skolla og ég þrípúttaði í öllum þeim tilvikum. Það er eitthvað sem ég ætla ekki að láta koma fyrir aftur og ef allt hefði verið eðlilegt hefði ég getað leikið á 68-69 höggum.“
Spurður um þá stöðu sem hann væri í eftir 2. keppnisdag sagði Birgir að það væri í raun ágætt að vera í 11. sæti miðað við hvernig til tókst í dag. „Ég verð að sætta mig við þá stöðu sem ég er í dag. Vissulega hefði ég viljað vera í betri stöðu en þegar púttin fara að detta á næstu tveimur hringjum þá hef ég engar áhyggjur af framhaldinu.“
Aðstæður á nýja hluta San Rouqe vallarins voru góðar í dag. Heiðskýrt og rúmlega 20 stiga hiti. „Það var afbragðsveður og slæmt að hafa ekki nýtt sér það betur. Mér skilst að það verði leikið á gamla hluta vallarins á morgun og á þriðjudag. Þar með verða allir keppendur að leika í einu en ekki helmingur þeirra eins og undanfarna fjóra daga. Gamli völlurinn er blautur og ég sá að vallarstarfsmenn og dómarar voru að mála með bláu á grasið út um allt í kringum flatirnar. Boltinn festist auðveldlega í drullu í kringum sumar flatir og ég á ekki von á því að gamli völlurinn verði notaður á síðustu tveimur keppnisdögunum.“