Birgir Leifur sýndi mikinn karakter eftir að hafa gengið brösulega á fyrri 9 holunum í dag. Hann náði ekki að setja niður neinn fugl en fékk 8 pör og einn skolla á 4 holunni. Það var því að duga eða drepast til að halda sér í baráttunni áfram. Birgir Leifur gerði það svo sannarlega með því að setja niður 2 fugla á skollalausum seinni 9 holunum.
Nú taka við 2 hringir þar sem 30 efstu sætin gefa mestan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni. Nú þegar hefur Birgir Leifur tryggt sér skráningu (e.Ranking) inni á Evrópumótaröðinni á nýjan leik en þar hefur náð sömu skráningu 1998,2001 og síðast 2005. Hann hefur tryggt sér skráningu (e. Ranking) í flokki 14 (e. Category 14) með því að ná niðurskurði í þessu móti. Þá hefur hann líka tryggt sér mun betri skráningu á Áskorendamótaröðinni á næsta ári í flokki 8 (e. category 8) í stað flokks 11 á þessu ári.
Nái hann að verða meðal 30 efstu manna við lok 6 hrings á fimmtudaginn nær hann enn betri skráningu og myndi við það skrást í flokk 4 (e. Category 4) á Áskorendamótaröðinni og flokk 11 (e. Category 11) á Evrópumótaröðinni. Það þýðir að hann getur tekið þátt í öllum mótum á Áskorendamótaröðinni og u.þ.b. 20 mótum á Evrópumótaröðinni á næsta keppnistímabili.