Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, komst í gegnum niðurskurðinn á opna Madrídarmótinu á evrópsku mótaröðinni í gær og þakkaði fyrir sig með því að spila sinn besta hring í langan tíma í dag.
Birgir kom inn á 68 höggum, fjórum höggum undir pari vallar, og er því örugglega ánægður með árangurinn. Birgir fékk einn örn, fjóra fugla og tvo skolla á hringnum. Þegar þetta er skrifað er Birgir í 39. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum en enn eiga einhvejrir eftir að koma í hús. Nú er um að gera fyrir Birgi að ná inn öðrum eins góðum hring á morgun og klifra upp listann, hvert sæti getur skipt sköpum um möguleika hans á því að halda kortinu sínu á mótaröðinni þetta árið. Áfram Biggi!