Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, hóf leik í dag á 3. stigi úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina sem fram fer hjá San Roque golfklúbbnum í Cadiz á Spáni. 156 kylfingar koma til með að berjast um 30 laus sæti á evrópsku mótaröðinni á næsta tímabili og stendur keppnin í sex daga, með niðurskurði eftir fjóra.

Birgir Leifur byrjaði á 10. teig og átti erfitt uppdráttar í byrjun, en hann var tveimur höggum yfir pari eftir þrjár holur. Birgir sýndi þó mikla seiglu og vann sig til baka með nokkrum góðum fuglum og endaði hringinn á samtals 71 höggi, eða einu höggi undir pari vallar. Þetta er fínasta byrjun hjá Birgi og vonandi að mótið þróist á svipaðan hátt fyrir hann og 2. úrtökumótið. Þar spilaði Birgir fyrsta hringinn á pari en á eftir fylgdu þrír frábærir hringir sem skiluðu okkar manni í fyrsta sæti mótsins þegar upp var staðið.

Birgir er sem stendur jafn öðrum kylfingum í 34. sæti, en töluvert margir eiga eftir að koma í hús þegar þetta er skrifað.

Skorkort Birgis
Staðan á mótinu