Birgir Leifur Hafþórsson er enn við sama heygarðshornið á lokaúrtökumóti evrópsku mótaraðarinnar. Fjórði hringurinn var spilaður í dag og Birgir lét engan bilbug á sér finna, spilaði mjög stöðugt golf og kom inn á 70 höggum, tveimur höggum undir pari vallar. Aðeins einn skolli leit dagsins ljós hjá okkar manni, en hann lét ekki sjá sig fyrr enn á 16.holu. Annars fékk Birgir þrjá fugla og 14 pör. Birgir ef samtals á 4 höggum undir pari eftir þessa fjóra hringi og er, þegar þetta er skrifað, í 19. – 25. sæti.
Þessi árangur Birgis þýðir að hann er öruggur í gegnum niðurskurðinn og hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á allra veikustu mótin á mótaröðinni á næsta ári. Það dugar þó okkar manni engan veginn og stefnir hann ótrauður á að enda meðal efstu 30, en þeir fá fullan keppnisrétt á mótaröðinni á næsta ári – samskonar keppnisrétt og Birgir hafði í ár. Nú eru eftir tveir hringir á morgun og á þriðjudaginn og nú er bara fyrir Birgi að klára dæmið, spila eins og hann hefur verið að gera undanfarið og þá flýgur hann í gegn.
Staðan á mótinu
Skorkort Birgis
Frábær umfjöllun um hring Birgis hjá kylfingur.is