Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur í GKG, spilaði fimmta hringinn af sex á lokaúrtökumóti evrópsku mótaraðarinnar í golfi á 71 höggi, einu höggi undir pari. Hringurinn var öllu skrautlegri en sá síðasti, en Birgir fékk fjóra skolla, fimm fugla og  níu pör á hringnum. Birgir byrjaði hálfbrösulega, var á tveimur höggum yfir pari eftir sex holur, en hann svaraði því með því að fá þrjá fugla í röð á 7., 8. og 9. holu. Var hann því einn undir eftir fyrri níu og þær seinni spilaði hann á pari.

Birgir er eftir þennan árangur í 17-24. sæti í mótinu á samtals fimm höggum undir pari. Okkar maður þarf að vera á meðal 30 efstu eftir hringinn á morgun til þess að halda þátttökurétti sínum á mótaröðinni og er búinn að skila sér í fína stöðu með stöðugu golfi. Nú er bara um að gera að klára morgundaginn á einhverjum höggum undir pari og þá ætti hann að vera öruggur inn. Áfram Biggi!

Staðan á mótinu

Skorkort Birgis
Umfjöllun um hring Birgis á kylfingur.is