Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, lauk í dag leik á lokaúrtökumóti fyrir evrópsku mótaröðina sem fram fór hjá San Roque klúbbnum í Cadiz á Spáni. Birgir lék síðasta hringinn á 72 höggum, eða pari vallar. Byrjunin var reyndar ansi brösuleg hjá okkar manni, en eftir fyrri níu var hann tveimur höggum yfir pari og ef sú staða hefði haldist þá hefði hann ekki komist inn á mótaröðina. Birgir sýndi þó úr hverju hann er gerður og fékk þrjá fugla (og reyndar einn skolla) á seinni 9, þar af tvo á síðustu þremur holunum.

Niðurstaðan eftir hringinn var 11.-15. sæti fyrir okkar mann og því öruggt að hann heldur fullum þátttökurétti á mótaröðinni á næsta ári. Verið gæti meira að segja að hann fengi fleiri mót þetta árið en í fyrra því oft gerðist það í ár að þáttakendatalan inn á mótin fylltist þegar í hans flokk var komið og því er betra að vera ofar þar og lenda sjaldnar í því að vera kannski einu eða tveimur sætum frá því að komast inn á mót.

Ljóst er að Íslendingar og GKG-ingar geta verið ansi stoltir af sínum manni, það er greinilegt að við höfum eignast kylfing sem getur komist í allra fremstu röð. Nú er hann að hefja annað árið á evrópsku mótaröðinni og vonandi er að honum takist að stimpla sig inn enn betur en í fyrra. Okkar maður hefur fengið reynsluna á þessu eina ári og nú liggur leiðin aðeins upp á við.

Stjórn GKG og starfsfólk óskar Bigga innilega til hamingju með árangurinn.

Skorkort Birgis

Staðan á mótinu
Umfjöllun holu-fyrir-holu hjá kylfingur.is